Íslenski boltinn

Ætlum að sjálfsögðu að fagna á Hvíta Riddaranum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lið Hvíta Riddarans.
Lið Hvíta Riddarans. mynd/erla
Hvíti Riddarinn mætti til leiks í fyrsta skipti í kvennaboltann í sumar. Tímabilið hefur verið liðinu erfitt og skellirnir þó nokkrir í B-riðli 1. deildar.

21-0 tap liðsins gegn Grindavík um síðustu helgi vakti athygli víða. Það bjuggust því ekki margir við miklu af liðinu í kvöld er það tók á móti Fram. Liðið sýndi aftur á móti stolt og karakter í kvöld með því að ná 1-1 jafntefli. Fram jafnaði leikinn fimm mínútum fyrir leikslok.

„Við erum auðvitað mjög ánægðar með stigið en að sama skapi fúlar með þetta jöfnunarmark. Það kom upp úr aukaspyrnu sem Fram átti aldrei að fá," segir Erla Edvardsdóttir, fyrirliði Hvíta-Riddarans.

Þetta var síðasti leikur liðsins í sumar. Það lýkur keppni með eitt jafntefli og ellefu töp. Markatalan er 3-95.

„Við vildum svara þessu ljóta tapi gegn Grindavík. Sýna að þetta lið er ekki fullt af einhverjum aulum. Við vorum með annað hugarfar og líka fullmannað lið," segir Erla og bætir við að gleðin hafi verið við völd eftir leik.

„Við fögnuðum þessu að sjálfsögðu vel og innilega eftir leik. Við ætlum svo að halda áfram að fagna á eftir. Við förum auðvitað á Hvíta Riddarann til þess að fagna stiginu. Við töluðum líka um eftir leikinn að það hefðu örugglega margir tapað peningum á þessum leik. Það eru örugglega menn út í heimi reiðir út í okkur núna," segir Erla og hlær.

Eftir tapið gegn Grindavík hefur komið upp umræða að það þurfi að vera fleiri deildir í kvennaboltanum. Þar er aðeins Pepsi-deild kvenna og svo 1. deildin. Erla er sammála því að það verði að fjölga deildum.

„Það kemur vonandi ný deild á næsta ári. Það vantar deild fyrir lið eins og okkur sem erum að byrja. Við höfum ekkert að gera í lið sem eru að berjast um sæti í Pepsi-deildinni," segir Erla.

„Það er ekki uppbyggjandi að tapa svona stórt. Það er niðurbrot og ekki hvetjandi fyrir lið að halda áfram er þau lenda ítrekað í þannig leikjum. En við ætlum að halda áfram. Það er ekki spurning."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×