Það eru ekki bara leikmenn NFL-deildarinnar sem koma sér í vandræði.
Einn af þjálfurum Buffalo Bills, Aaron Kromer, verður ekki með liðinu í fyrstu sex umferðum NFL-deildarinnar. Félagið er búið að setja hann í bann.
Kromer verður með liðinu fram að tímabilinu en verður svo í sex vikna, launalausu banni en hann var kærður fyrir að lemja unglingsdreng í sumar.
Kromer lenti í útistöðum við unga drengi á strönd og þau læti enduðu víst með því að Kromer kýldi einn drengjanna.
Foreldrar drengsins drógu að lokum kæruna til baka en Kromer fer engu að síður í bann hjá Bills.
