Íslenski boltinn

Leikur Vals og Stjörnunnar færður á Laugardalsvöllinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heiða Dröfn Antonsdóttir og félagar í Val hafa spilað í Laugardalnum í sumar þegar þær unnu útileik á móti Þrótti á Valbjarnavellinum.
Heiða Dröfn Antonsdóttir og félagar í Val hafa spilað í Laugardalnum í sumar þegar þær unnu útileik á móti Þrótti á Valbjarnavellinum. Vísir/Andri Marinó
Valskonur spila ekki heimaleik sinn á móti Stjörnunni í Pepsi-deild kvenna í kvöld á Hlíðarenda eins og ætlunin var.

Leikur Vals og Stjörnunnar hefur verið færður á Laugardalsvöllinn vegna vallaraðstæðna að Hlíðarenda. Leikur liðann hefst klukkan 19.15.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá KSÍ kom það í ljós síðdegis í gær að það þyrfti að færa leikinn af æfingasvæðinu á Hlíðarenda vegna slæmra aðstæðna þar.

Báðir meistaraflokkar Vals urðu að finna sér nýjan heimavöll eftir að Valsmenn ákváðu að rífa upp grasið á aðalleikvangi félagsins og setja í staðinn gervigras.

Karlalið félagsins ákvað strax að spila heimaleiki sína á Laugardalsvellinum en kvennalið Vals vildi halda tryggð við Hlíðarenda og spila frekar á æfingasvæðinu fyrir neðan aðalvöllinn.

Það verður hinsvegar ekkert að því að svo stöddu en enginn ætti að kvarta yfir því að fá að spila á sjálfum þjóðarleikvanginum í Laugardalnum.

Leikur Vals og Stjörnunnar er sá fyrsti í 13. umferð Pepsi-deildar kvenna. Valskonur geta komist upp í þriðja sæti deildarinnar með því að ná í stig en Stjörnukonur minnka forskot Blika á toppnum í eitt stig takist þeim að vinna Valsliðið í þessum leik.

Stjarnan hefur styrkt sig með fjórum nýjum erlendum leikmönnum fyrir lokasprettinn á Íslandsmótinu og Evrópukeppninni sem er næst á dagskrá hjá Garðabæjarliðinu. Einhverjar þeirra gætu spilað fyrsta leikinn sinn með Stjörnunni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×