Íslenski boltinn

Hallbera: Komum í Breiðablik til að vinna titla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hallbera hefur leikið alla leiki Breiðabliks í sumar.
Hallbera hefur leikið alla leiki Breiðabliks í sumar. vísir/andri marinó
Hallbera Guðný Gísladóttir er einn fimm fulltrúa Breiðabliks í úrvalsliði fyrri umferðar Pepsi-deildar kvenna en viðurkenningar fyrir hana voru veittar í höfuðstöðvum Ölgerðarinnar í hádeginu í dag.

Hallbera er hluti af ógnarsterkri vörn Blika sem hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í Pepsi-deildinni og haldið hreinu í síðustu átta leikjum sínum.

„Þetta er alltaf skemmtilegt. Við erum búnar að hleypa fáum mörkum inn svo þetta kom ekkert sérstaklega á óvart,“ sagði Hallbera en hver er lykilinn að þessum sterka varnarleik Breiðabliks?

„Ég er að spila við hliðina á Fríðu (Málfríði Ernu Sigurðardóttur) og spilaði lengi með henni í Val. Mér finnst vera góð blanda í vörninni, það er reynsla og hraði og allt sem til þarf. Þetta hefur smollið vel saman.“

Hallbera kom Breiðabliks frá Val fyrir tímabilið, ásamt Málfríði og Svövu Rós Guðmundsdóttur. Hallbera og Málfríður unnu marga titla saman með Val og komu með sigurþekkingu inn í Blikaliðið sem hefur ekki orðið Íslandsmeistari síðan 2005.

„Við komum með ákveðna reynslu inn í liðið og það er ekkert leyndarmál að við komum í Breiðablik til að vinna titla. Breiðablik er búið að vera með mjög gott lið undanfarin ár en ekki náð að taka síðasta skrefið. Vonandi er blandan í liðinu rétt núna,“ sagði Hallbera en hvernig hafa fyrstu mánuðir í grænu treyjunni verið?

„Ég þurfti aðeins venjast þessu en þetta er búið að vera frábært. Aðstaðan hjá Breiðabliki er mjög flott og það er hugsað vel um kvennaliðið sem skiptir miklu máli.“

Liðsfélagi Hallberu, Fanndís Friðriksdóttir, var útnefnd besti leikmaður fyrri umferðarinnar en hún hefur farið á kostum í sumar og er markahæst í Pepsi-deildinni með 14 mörk í 11 leikjum.

„Það er frábært að vera með svona leikmann. Hún hefur staðið upp úr og klárað leikina fyrir okkur og heldur vonandi áfram á sömu braut,“ sagði Hallbera að lokum.


Tengdar fréttir

Fanndís: Þurfum að spýta aðeins í lófana

Fanndís Friðriksdóttir var valinn besti leikmaður fyrri umferðar Pepsi-deildar kvenna á hófi sem var haldið í höfuðstöðvum Ölgerðarinnar í hádeginu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×