Sport

Lyfjaráð staðfestir að Þorvaldur féll á lyfjaprófi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þorvaldur Árni slapp með skrekkinn síðast.
Þorvaldur Árni slapp með skrekkinn síðast. mynd/hestafréttir.is
Lyfjaráð Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur staðfest að verðlaunaknapinn Þorvaldur Árni Þorvaldsson féll á lyfjaprófi eins og Vísir greindi frá í síðasta mánuði.

Fram kemur í frétt Lyfjaráðs á heimasíðu ÍSÍ að ákæra hafi verið send til Dómstóls ÍSÍ vegna „afbrigðilegra niðurstaðna (adverse analytical finding)“ á lyfjaprófi Þorvaldar.

Þetta er í annað sinn á rúmu ári sem Þorvaldur fellur á lyfjaprófi, en hann var úrskurðaður í þriggja mánaða bann í fyrra þegar amfetamín fannst í lyfsýni hans.

Samkvæmt heimildum Vísis er um sama eða sambærilegt efni að ræða að þessu sinni.

Bannið var síðar stytt niður í einn mánuð og losnaði hann úr því daginn fyrir landsmót hestamanna, stærsta hestamót ársins. Skúli Skúlason, formaður lyfjaráðs ÍSÍ, var ekki hrifinn af niðurstöðu áfrýjunarnefndar í því máli.

„Ég harma mjög þau mistök mín að hafa brotið lög ÍSÍ um lyfjamál og hef einsett mér að læra af þessum mistökum þannig að slíkt gerist aldrei aftur,“ sagði Þorvaldur í yfirlýsingu um málið í fyrra.

Knapinn slapp með skrekkinn í fyrra en líklega á hann yfir höfði sér langt bann að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×