Íslenski boltinn

Ásgerður: Ætlum okkur klárlega áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjörnustúlkur leika þrjá leiki á sex dögum á Kýpur um miðjan ágúst.
Stjörnustúlkur leika þrjá leiki á sex dögum á Kýpur um miðjan ágúst. vísir/valli
„Bæði og, formaðurinn er kannski ekkert rosa sáttur. Okkur langaði að fara í sólina en þetta er held ég lengsta og dýrasta ferðalagið,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Íslands- og bikarmeistara Stjörnunnar, aðspurð hvort hún væri sátt með dráttinn í Meistaradeild Evrópu í dag.

Eins og greint var frá á Vísi fyrr í dag dróst Stjarnan í riðil með Apollon Limassol frá Kýpur, KÍ Klaksvík frá Færeyjum og maltneska liðinu Hibernians.

Riðilinn verður leikinn á Kýpur 11.-16. ágúst en sigurvegari hans kemst áfram í 32-liða úrslit Meistaradeildarinnar.

„Það hefði verið hagstæðara að fá styttra ferðalag þar sem við erum að spila við Breiðablik 20. ágúst.

„Það hefði verið betra að fara eitthvað styttra en það er ágætt að komast í sólina, við sjáum hana ekki mikið hér á landi,“ sagði Ásgerður hlæjandi. Hún segir að Stjarnan renni svolítið blint í sjóinn en liðið ætli sér áfram.

„Nú fara þjálfararnir í að afla sér upplýsinga um þessi lið. Ég veit ekki hversu erfitt það er að finna upplýsingar um liðið frá Kýpur en þær eiga víst að vera góðar og voru í efsta styrkleikaflokki af liðunum í riðlinum.

„Þetta verða allt erfiðir leikir en við ætlum okkur klárlega í 32-liða úrslit,“ sagði Ásgerður að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×