Íslenski boltinn

Breiðablik rúllaði yfir Val - fimmti sigur Selfoss í röð | Myndir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/stefán
Breiðablik heldur sigurgöngu sinni í Pepsi-deild kvenna í fótbolta áfram en Blikastúlkur unnu yfirburðasigur á Val á Vodafone-vellinum í kvöld, 0-6.

Stefán Karlsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á Vodafone-vellinum í kvöld og tók meðfylgjandi myndir.

Þetta var fimmti sigur Breiðabliks í fyrstu sex leikjunum en liðið er á toppi deildarinnar með 16 stig og markatöluna 22-2.

Jóna Kristín Hauksdóttir opnaði markareikninginn á 5. mínútu og varnarmaðurinn Guðrún Arnardóttir kom Blikum í 0-2 á 36. mínútu. Þetta voru fyrstu mörk þeirra beggja í sumar.

Þá komið að Fanndísi Friðriksdóttir sem skoraði tvö mörk með 12 mínútna millibili, á 41. og 53. mínútu. Fanndís er nú búin að skora sjö mörk í sumar og er markahæst í Pepsi-deildinni.

Málfríður Erna Sigurðardóttir skoraði svo gegn sínum gömlu félögum á 67. mínútu og kom Blikum í 0-5 og 11 mínútum fyrir leikslok setti Telma Hjaltalín Þrastardóttir punktinn yfir i-ið með sínu sjötta marki í deildinni.

Blikar eru sem áður segir á toppnum en Valur er í frjálsu falli eftir góða byrjun. Valskonur unnu fyrstu þrjá leiki sína í deildinni en hafa tapað síðustu þremur leikjum með markatölunni 1-13.

Selfoss er aðeins einu stigi á eftir Breiðabliki en Selfyssingar unnu 2-0 sigur á Aftureldingu á JÁVERK-vellinum.

Donna Kay Henry og Magdalena Anna Reimus skoruðu mörkin tvö í seinni hálfleik.

Selfoss hefur nú unnið fimm leiki í röð eftir að hafa tapað fyrir Fylki í 1. umferðinni.

Þá gerðu KR og Þróttur markalaust jafntefli í botnslag á KR-vellinum.

Þróttur hefur ekki enn skorað mark í deildinni eftir sex leiki en liðið er með tvö stig, líkt og KR. Afturelding vermir botnsætið með aðeins eitt stig.

Fyrr í kvöld vann ÍBV 1-4 sigur á Fylki á útivelli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×