Íslenski boltinn

Framherjar Blika í stuði í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fanndís er markahæst í Pepsi-deildinni með sjö mörk.
Fanndís er markahæst í Pepsi-deildinni með sjö mörk. vísir/stefán
Kvennalið Breiðabliks er ekki aðeins á toppi Pepsi-deildar kvenna þegar þriðjungur deildarkeppninnar er að baki því liðið á einnig tvo markahæstu leikmennina eftir sex umferðir af átján.

Breiðabliksliðið hefur skorað 22 mörk í fyrstu sex leikjunum eða 3,7 mörk í leik og hefur náð í sextán af átján stigum í boði.

Fanndís Friðriksdóttir er markahæsti leikmaður deildarinnar með sjö mörk og Telma Hjaltalín Þrastardóttir hefur skorað einu marki minna. Þrátt fyrir að vera í mikilli baráttu um gullskóinn þá hafa þær stöllur verið duglegar að leggja upp mark hvor fyrir aðra í fyrstu sex umferðunum.

Fanndís hefur skorað í öllum sex leikjunum nema einum og í honum lagði hún upp sigurmarkið fyrir Telmu. Það var svo sannarlega ekki fyrsta markið sem Fanndís leggur upp fyrir Telmu í sumar.

Telma þakkaði reyndar fyrir sig í næsta leik og átti stoðsendinguna á Fanndísi í báðum mörkum hennar í 6-0 stórsigri á Val á útivelli. Telma skoraði einnig í sigrinum á Val og hefur hún nú skorað í þremur leikjum Breiðabliks í röð og öllum leikjum nema einum.

Þetta þýðir að annaðhvort Fanndís og Telma hafa skorað í öllum sex leikjum Blika í sumar og í fjórum leikjanna hafa þær báðar verið á skotskónum.

Markahæstu leikmenn Pepsi-deildar kvenna eftir sex umferðir:

Fanndís Friðriksdóttir, Breiðabliki 7

Telma Hjaltalín Þrastardóttir, Breiðabliki 6

Kristín Erna Sigurlásdóttir, ÍBV 5

Guðmunda Brynja Óladóttir, Selfossi 5

Elín Metta Jensen, Val 5

Vesna Elísa Smiljkovic, Val 5

Harpa Þorsteinsdóttir, Stjörnunni 5

Sandra María Jessen, Þór/KA 5

Shaneka Jodian Gordon ÍBV 4

Sarah M. Miller, Þór/KA 4

Klara Lindberg, Þór/KA 4




Fleiri fréttir

Sjá meira


×