Lúxemborg vann 3-1 sigur á íslenska kvennalandsliðinu í blaki á Smáþjóðaleikunum í kvöld.
Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á staðnum og tók myndirnar sem fylgja fréttinni.
Íslenska liðið byrjaði betur og var nokkrum stigum yfir lengst af þangað til Lúxemborg jafnaði 23-23. Stelpurnar okkur héldu haus og unnu hrinuna 25-23.
Önnur hrina var jöfn framan af en Lúxemborg komst yfir 13-12 og skildi íslensku stelpurnar eftir. Hrinan endaði 25-18, Lúxemborg í vil. Þriðja hrina var með svipuðu sniði og önnur hrina sem Lúxemborg vann 25-21.
Í fjórðu hrinu mætti lið lið Lúxemborgar mun sterkara til leiks og voru yfir í stöðunni 11-4. Efiðar uppgjafir fyrirliða Lúxemborgar, Isabelle Frisch, gerðu íslensku stelpunum lífið leitt og erfitt reyndist fyrir íslenska liðið að skila sóknum. Íslenska liðið náði að minnka muninn og komst í 17-20.
Þá komst hin gríðarlega öfluga Annalena Mach í gang og gerði út um leikinn. Lúxemborg kláraði fjórðu hrinu 25-18 og þar með leikinn 3-1.
Stigahæst í liðinu var fyrirliðinn, Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir með 11 stig. Í liði Lúxemborgar var Annalena Mach stigahæst, með 20 stig.
Íslenska liðið hefur lokið leik á Smáþjóðaleikunum en það vann tvo leiki og tapaði tveimur. Ísland er sem stendur í 2. sæti á eftir Svartfellingum sem eru þegar búnir að tryggja sér sigurinn.
Það kemur í ljós á morgun hvort Ísland vinnur til silfur- eða bronsverðlauna en úrslitin í leik Lúxemborgar og San Marínó skera úr um það.
Öruggar með verðlaun þrátt fyrir tap | Myndir
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Fleiri fréttir
