Sport

Condit lagði Alves að velli í Brasilíu

Condit og Alves gáfu allt í bardagann.
Condit og Alves gáfu allt í bardagann. vísir/getty
Carlos Condit bar sigurorð á Thiago Alves í bardaga þeirra í UFC í nótt. Dómarinn stöðvaði bardagan að læknisráði eftir 2. lotu en þá var Alves illa leikinn eftir meðhöndlun Condit.

Þetta var fyrsti bardagi hins 31 árs gamla Condit síðan hann barðist við Tyron Woodley í mars 2014. Condit meiddist illa á hné í þeim bardaga og þurfti aðgerð til að koma sér í stand á nýjan leik. Það var hins vegar ekki að sjá að Condit væri neitt ryðgaður gegn Alves í nótt.

Alves var vel studdur af áhorfendum í sal en bardaginn fór fram í heimalandi hans, Brasilíu. Condit var duglegur að breyta um stíl í fyrstu lotu og það virtist trufla Alves. Alves reyndi að sækja en Condit náði að lenda nokkrum góðum höggum og spörkum sem drógu vel úr krafti heimamannsins.

Litlu munaði að dómarinn stoppaði bardagan í 2. lotu þegar Alves féll í gólfið eftir gott olnbogahögg frá Condit en Alves kom sér á aftur á fætur. Alves lagði allt í bardagann en allt kom fyrir ekki þar sem læknir bardagans mat ástandið á Alves það alvarlegt að réttast væri að stöðva bardagann.

Condit hefur nú unnið 30 bardaga á sínum ferli og tapað 8. Alves hefur hins vegar unnið 26 bardaga en tapað 10 talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×