Íslenski boltinn

Dagný og Guðmunda: Gefur okkur ótrúlegt sjálfstraust

Ingvi Þór Sæmundsson á Samsung-vellinum skrifar
Dagný og Guðmunda voru sáttar að leik loknum.
Dagný og Guðmunda voru sáttar að leik loknum. Vísir/iþs
Dagný Brynjarsdóttir og Guðmunda Brynja Óladóttir voru að vonum sáttar með sigur Selfoss á Stjörnunni í kvöld. Þetta var fyrsta tap Stjörnunnar á Íslandsmóti í rúmt ár eða síðan Garðbæingar töpuðu fyrir Breiðabliki í 1. umferð Pepsi-deildarinnar 2014.

„Það var gott að vinna þennan leik og sérstaklega á þeirra heimavelli,“ sagði Guðmunda sem skoraði sigurmark Selfoss á 68. mínútu. En hvað skóp þennan sigur í kvöld?

„Við pressuðum þær hátt uppi á vellinum og féllum ekki of langt frá þeim. Við fengum fullt af færum, í báðum hálfleikjunum, og við hefðum auðveldlega getað skorað fleiri mörk.“

Sjá einnig:Stjörnubanarnir frá Selfossi í stuði eftir leik

„Þetta var góður liðssigur,“ sagði Dagný sem lék sinn annan leik með Selfossi í kvöld eftir að hafa komið nokkuð óvænt til liðsins eftir að hafa orðið Þýskalandsmeistari með Bayern München í vor.

Selfoss spilaði sterkan varnarleik í kvöld og Íslands- og bikarmeistararnir voru í vandræðum með að skapa sér færi.

„Við lögðum upp með að vera þéttar fyrir og það gekk eftir. Mér fannst við ná að loka ótrúlega vel á þær og þær komust ekki oft einar á móti markmanni,“ sagði Guðmunda og Dagný bætti við:

„Á tímabili féllum við kannski aðeins of langt frá þeim en við rifum okkur upp og þá lagaðist þetta aftur. Þær settu svo pressu á okkur undir lokin en við reyndum að spila skynsamlega og loka á þær.“

Komnar af alvöru í toppbaráttuna

Guðmunda skoraði sem áður sagði sigurmark Selfyssinga en hvernig leit það út fyrir henni?

„Ég er þekkt fyrir að skjóta þegar ég sé markið og ég heyrði fullt að fólki öskra á mig að láta vaða. Svo ég ákvað að skjóta og það skilaði sér í þessu marki,“ sagði Guðmunda en Selfyssingar setja stefnuna á toppbaráttu í sumar.

„Þessi sigur gefur okkur ótrúlegt sjálfstraust, að vinna Íslandsmeistara sem eru ekki búnar að tapa í rúmt ár,“ sagði Guðmunda og Dagný bætti við:

„Það var mikilvægt að fá þrjú stig í kvöld til að halda okkur í toppbaráttunni. Við töpuðum þremur dýrmætum stigum í 1. umferðinni en núna erum við komnar að alvöru í toppbaráttuna þar sem við ætlum að vera."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×