Fótbolti

Sigurræða Blatters: Ég er ekki fullkominn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sepp Blatter rífur í spaðann á Issa Hayatou.
Sepp Blatter rífur í spaðann á Issa Hayatou. vísir/getty
„Kæru félagar, þið hafið fyrir framan ykkur forseta FIFA. Vinsamlega klappið fyrir honum.“

Þetta sagði Issa Hayatou, forseti afríska knattspyrnusambandsins, er hann stóð við hliðina á Sepp Blatter á sviðinu á ársþingi FIFA sem lauk í dag.

Blatter var endurkjörinn forseti FIFA í dag þegar prins Ali bin Hussein dró framboð sitt til baka eftir að fá aðeins 73 atkvæði í fyrstu umferð.

Það var við hæfi að Issa Hayatou kynnti Blatter á sviðið þar sem Afríka stendur þétt við bakið á Svisslendingnum.

Eftir lófaklapp og smá baul úr salnum þakkaði Blatter fundargestum fyrir.

Prins Ali náði ekki kjöri.vísir/getty
„Fyrst og fremst vil ég hrósa prins Ali og þakka honum fyrir,“ sagði Blatter.

„Prins Ali var keppinautur og áskorandi sem fékk góða kosningu. Hann hefði auðveldlega getað haldið áfram í von um að fá fleiri atkvæði.“

„Að því sögðu þakka ég ykkur fyrir að kjósa mig áfram. Næstu fjögur árin verð ég skipstjóri á FIFA-skipinu sem við munum skila aftur til hafnar.“

„Fyrir fjórum árum var mikið af vandræðum sem við þurftum að afgreiða og ég lét ykkur sjá um það. Ég skoraði á ykkur.

„En nú eru vandamál sem við þurfum að leysa innan sambandsins,“ sagði Blatter og talaði einnig um að hann vildi fá fleiri konur í nefndarstörfin.

Blatter, sem hefur kvartað yfir því á þinginu að honum sé kennt um spillinguna innan sambandins, ítrekaði enn og aftur að hann ætlar að endurbyggja FIFA.

„Ég tek á mig ábyrgðina að endurbyggja FIFA. Ég er viss um að við gerum það saman,“ sagði Blatter.

„Ég mun skila af mér FIFA í mjög sterkri stöðu að lokinni forsetatíð minni. En við þurfum að vinna saman.“

„Ég er ekki fullkominn. Enginn er fullkominn, en við munum standa okkur saman. Sameinuð stöndum við. Höldum áfram, FIFA! Þakka ykkur fyrir,“ sagði sigurreifur Sepp Blatter.


Tengdar fréttir

Hver er prinsinn sem vill verða FIFA-kóngur?

Forsetakjör FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, fer fram í dag. Hinn þaulsætni Sepp Blatter sækist eftir endurkjöri en í vegi hans stendur Ali bin Hussein Jórdaníuprins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×