Íslenski boltinn

Gerir Telma gömlu félögunum áfram lífið leitt í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Telma Hjaltalín Þrastardóttir.
Telma Hjaltalín Þrastardóttir. Vísir/Ernir
Vísir verður með beina útsendingu frá leik Aftureldingar og Breiðabliks í kvöld en þetta er leikur í 2. umferð Pepsi-deildar kvenna.

Vísir er í samstarfi við Sporttv um að sýna frá kvennadeildinni á þessu tímabili. Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.15.

Blikinn Telma Hjaltalín Þrastardóttir skoraði tvö mörk í 5-0 sigri Blika í fyrstu umferðinni og í kvöld mætir hún á sinn gamla heimavöll.

Telma, sem er tvítug, er enn markahæsti leikmaður Aftureldingar í efstu deild með sextán mörk en hún skoraði þau í 27 leikjum sumrin 2010 og 2013.

Telma var sínu gömlu félögum afar erfið í sama leik fyrir ári síðan en Breiðablik vann þá 4-3 sigur. Telma skoraði þá þrennu á fyrstu sextán mínútum leiksins en Blikar voru 4-1 yfir í hálfleik.

Telma skoraði líka í fyrri leiknum í Kópavogi og var því með fjögur mörk á móti æskufélagi sínu í tveimur leikjum liðanna í fyrrasumar.

Blikakonur byrjuðu mótið afar sterkt með 5-0 sigri á nýliðum Þróttar en Afturelding tapaði á sama tíma 3-0 á móti Val.

Það gæti því orðið erfitt fyrir heimastúlkur að stoppa hina eldfljótu Telmu Hjaltalín Þrastardóttur í kvöld eða þá landsliðskonuna Fanndísi Friðriksdóttur sem skoraði líka tvö mörk í fyrsta leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×