Erlent

Sigldi á björgunarskipið

Samúel Karl Ólason skrifar
Komið með eftirlifenduna að landi.
Komið með eftirlifenduna að landi. Vísir/AFP
Nú virðist komið í ljós að skipstjóri flóttamannabátsins sem fórst á Miðjarðarhafi á sunnudag með þeim afleiðingum að rúmlega átta hundruð fórust, sigldi á portúgalska björgunarskipið sem komið var á svæðið til að aðstoða flóttafólkið. Saksóknarar á Ítalíu fullyrða þetta eftir samtöl við vitni en skipstjórinn er nú í haldi, sakaður um manndráp af gáleysi.

Sjá einnig: Skipstjórinn handtekinn og sakaður um morð

Sameinuðu þjóðirnar segja að skipsskaðinn sé sá mannskæðasti á Miðjarðarhafi í sögunni og ástandið á hafinu í ár er mun alvarlegra en í fyrra. Talið er að rúmlega átta hundruð flóttamenn hafi farist með skipinu, en alls telja Sameinuðu þjóðirnar að um 1.300 hafi látið lífið á Miðjarðarhafinu í apríl.

Mohammed Ali Malek og Mahmud Bikhit, en þeir tóku þátt í að reyna að smygla fólkinu til Evrópu.Vísir/AFP
Um þrjátíu sinnum fleiri hafa nú látið lífið miðað við sama tíma í fyrra og miðað við það má reikna með að allt að þrjátíu þúsund manns drukkni í hafinu á árinu, verði ekki gripið til aðgerða. Á síðustu tveimur vikum hefur meira en tíu þúsund flóttamönnum verið bjargað af fleyjum sem sum hver vart fljóta, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Hinn 27 ára gamli Mohammed Alì Malek, er talinn hafa verið við stjórnvölin á fiskiskipinu þegar slysið varð. Hann var meðal þeirra 28 sem komu lífs af ásamt öðrum smyglara. Einungis karlmenn og ungir menn á táningsaldri lifðu slysið af.

Í stað þess að leggja að hlið portúgalska skipsins sem hafði komið þeim til bjargar sigldi Malek á það. Eftirlifendur segja að við það hafi fólk orðið hrætt og flestir hafi hlaupið yfir í aðra hlið skipsins. Við það hvolfdi skipinu mjög fljótt, en fjölmargir flóttamenn höfðu verið læstir á neðri þilförum skipsins.

Helstu áherslur nýrrar áætlunar Evrópusambandsins er að handtaka æðstu smyglarana og eyðileggja skip þeirra. Enn sem komið er hafa yfirvöld í Ítalíu handtekið um þúsund smyglara en þeir eru flestir skipstjórar báta, en ekki yfirmenn í smyglhringjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×