Erlent

Vill flóttamannabúðir í Níger og Súdan

Samúel Karl Ólason skrifar
Matteo Renzi segir að hægt væri að vinna úr hælisumsóknum flóttafólk í flóttamannabúðum í Evrópu.
Matteo Renzi segir að hægt væri að vinna úr hælisumsóknum flóttafólk í flóttamannabúðum í Evrópu. Vísir/EPA
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, segir að Evrópusambandið verði að bregðast hratt við og móta ítarlega áætlun til að stöðva flæði flóttamanna frá Líbýu. Hann segir mögulegt að setja upp flóttamannabúðir í Níger, Súdan og mögulega fleiri löndum í Afríku sem deili landamærum með Líbýu, með aðstoð Sameinuðu þjóðanna.

Þar væri hægt að vinna úr hælisumsóknum flóttafólks. Þannig myndu öll Evrópulöndin bera ábyrgð á fólkinu, en ekki bara Ítalía.

Renzi sagði ítalska þinginu í morgun að hernaðaraðgerðir þyrfti til að stöðva smyglara. Varnarmálaráðherra Ítalíu segir að áætlanir liggi fyrir. „Við vitum hvar þeir geyma bátana sína og hvar þeir safnast saman. Áætlanir til hernaðaríhlutunar eru til staðar,“ sagði Roberta Pinotti í sjónvarpsviðtali eftir ávarp forsætisráðherrans á þinginu.

Undanfarin misseri hefur Ítalía þurft að bjarga hundruðum flóttamanna á Miðjarðarhafinu. Samkvæmt AP fréttaveitunni kom strandgæsla Ítalíu með 446 flóttamenn að landi, sem bjargað hafði verið í gær.

Leiðtogar Evrópusambandsins munu koma saman á morgun til að ræða mögulegar aðgerðir. Pinotti segist vongóð um að ESB muni taka skref til að koma til móts við vandamálið sem þessi mikli fjöldi flóttamanna hefur skapað.

„Við teljum að tími sé kominn til að ESB setji í gang alþjóðlega lögregluaðgerð til að stöðva þessa glæpamenn,“ sagði hún.

Renzi sagði á þinginu í morgun að aðgerðir Ítalíu væru ekki nægjanlegar og meira þyrfti til. Frá byrjun 2014 hefur Ítalía bjargað um 200 þúsund flóttamönnum sem lent hafa í sjálfheldu á Miðjarðarhafinu.

„Við erum að biðja Evrópu um að vera Evrópa, ekki bara þegar kemur að því að búa til fjárhagsáætlanir.“


Tengdar fréttir

Sigldi á björgunarskipið

Skipstjóri fiskiskipsins sem sökk í miðjarðarhafinu sigldi á portúgalska björgunarskipið sem komið var á svæðið til að aðstoða flóttafólkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×