Sport

Dominiqua efst annað Evrópumótið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominiqua Belanyi,  Thelma Rut Hermannsdóttir og Norma Dögg Róbertsdóttir.
Dominiqua Belanyi, Thelma Rut Hermannsdóttir og Norma Dögg Róbertsdóttir. Vísir/Ernir
Dominiqua Belanyi náði bestum árangri íslensku fimleikakvennanna í fjölþraut undankeppninni á Evrópumótinu í áhaldafimleikum sem lauk í gær í Montpellier í Frakklandi.

Dominiqua Belanyi endaði í 39. sæti í fjölþrautinni með 49.133 stig en Norma Dögg Róbertsdóttir varð í 53. sæti með 47.165 stig.

Thelma Rut Hermannsdóttir varð síðan í 62. sæti með 45.365 stig og Andrea Orradóttir náð 66. sætinu með 43.165 stig.

Þetta er annað Evrópumótið í röð þar sem Dominiqua Belanyi nær bestum árangri íslensku stelpnanna en hún varð í 35. sæti á EM í Moskvu fyrir tveimur árum síðan.

Norma Dögg Róbertsdóttir náði bestum árangri í einstakri grein alveg eins og fyrir tveimur árum og er fyrsti varamaður inn í úrslitin í stökki. Norma Dögg náði níunda sæti í stökki sem er besti árangri íslenskrar konu á EM frá upphafi.

Dominiqua varð í 44. sæti á jafnvægislá, í 45. sæti á tvíslá og í 55. sæti í æfingum á gólfi en hún varð efst af íslensku stelpunum í öllum þessum greinum.

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við Dominiquu eftir að hún hafði lokið keppni.

Viðtal eftir mót: Dominiqua Alma

Posted by Fimleikasamband Íslands on 15. apríl 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×