Innlent

Al­myrkvi verður á vestur­hluta Ís­lands árið 2026

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sólmyrkvi verður þegar tunglið gengur milli sólar og Jarðar og myrkvar þannig sólina að hluta eða í heild séð frá Jörðinni.
Sólmyrkvi verður þegar tunglið gengur milli sólar og Jarðar og myrkvar þannig sólina að hluta eða í heild séð frá Jörðinni. Vísir/GVA

Sólmyrkvinn í seinustu viku vakti vægast sagt mikla athygli hér á landi, sem og um allan heim, og margir eru væntanlega orðnir spenntir fyrir næsta sólmyrkva sem verður þann 12. ágúst 2026.

Sólmyrkvinn sem varð núna á föstudaginn var almyrkvi sem sást í Færeyjum og á Svalbarða en ferill myrkvans lá um 70 kílómetra austur af suðausturhluta Íslands. Hér á landi sást því deildarmyrkvi en tunglið huldi 97,5% sólar í Reykjavík og 99,4% á Austurlandi.

Árið 2026 mun hins vegar sjást almyrkvi á Íslandi. Samkvæmt svari á vef Vísindavefsins við spurningunni hvar verði best að vera á landinu mun ferill skuggans sem fellur á jörðina liggja yfir vesturhluta Íslands. Það verður því bara hægt að sjá almyrkva á vestasta hluta landsins en annars staðar verður deildarmyrkvi.

Almyrkvi verður á svæðinu milli bláu línanna á myndinni.Mynd/Nasa

„Myrkvinn stendur mislengi yfir, lengur eftir því sem vestar dregur. Sem dæmi þá mun almyrkvinn standa í 2 mínútur og 13 sekúndur á Látrabjargi, vestasta odda landsins, í 1 mínútu og 36 sekúndur á Ísafirði en 1 mínútu og 10 sekúndur í Reykjavík. Á Akureyri sést deildarmyrkvi og mun tungl hylja 97,9% af þvermáli sólar þaðan séð. Á Norðfirði mun tungl hylja 95% af þvermáli sólar,“ segir í svari Vísindavefsins.

Það verður því almyrkvi í Reykjavík en miðað við spennuna í kringum seinasta myrkva má ætla að fjöldi fólks leggi leið sína á vestasta odda landsins, Látrabjarg, til að upplifa sem lengstan almyrkva.


Tengdar fréttir

Hitastigið féll lítillega í myrkvanum

Það fór varla framhjá neinum í dag þegar sólmyrkvi sjást ágætlega á Íslandi. Veðurskilyrðin voru fín hér á höfuðborgarsvæðinu og sást vel í sólmyrkvann.

Heilluðust af sólmyrkvanum

Ljósmyndarar Vísis fönguðu augnablikið þar sem fólk kom saman til að fylgjast með sólmyrkvanum.

Bjuggu til sín eigin sólmyrkvagleraugu

Nemendur í Menntaskólanum í Reykjavík dóu ekki ráðalausir þegar sólmyrkvagleraugu reyndust uppseld í landinu og bjuggu til sín eigin. Fjöldi Íslendinga hefur tekið frá morguninn til að fylgjast með þessu einstaka náttúrufyrirbæri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×