Bæði Icelandair og Wow Air ætla að taka upp þá vinnureglu upp í flugi að aldrei séu færri en tveir úr áhöfn í flugstjórnarklefanum. Þessi ákvörðun er tekin í vegna þess harmleiks sem átti sér stað þegar aðstoðarflugmaður Germanwings-vélarinnar brotlenti vélinni viljandi í Ölpunum á þriðjudag.
Flugstjórinn vélarinnar hafði yfirgefið flugstjórnarklefann til að fara á salernið. Þegar hann kom til baka hafði aðstoðarflugmaðurinn læst flugstjórnarklefanum, hægt á vélinni og sett hana í dýfu. Á hljóðupptökum má heyra flugstjórann biðja flugmanninn um að hleypa sér inn en honum er aldrei svarað.
Nú þegar hafa nokkur flugfélög boðað að héðan í frá megi aldrei vera færri en tveir í flugstjórnarklefanum hverju sinni eftir að þetta kom í ljós í dag. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir fyrirtækið hafa tekið upp þessa vinnureglu og að hún komi til framkvæmda strax.
„Í framhaldi af þessum fréttum af ástæðum flugslyssins í Frakklandi hefur Icelandair ákveðið að taka þessa vinnureglu upp í flugi að aldrei séu færri en tveir úr áhöfninni í flugstjórnarklefanum. Þannig að ef annar flugmaðurinn þarf að fara frá þá komi flugfreyja eða flugþjónn inn í klefann,“ segir Guðjón í samtali við Vísi.
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow Air, segir fyrirtækið fylgja alþjóðlegum stöðlum og að það sé ekki vinnuregla hjá fyrirtækinu að aldrei megi vera færri en tveir í flugstjórnarklefanum hverju sinni. „En í ljósi þessarar sorglegu fréttar erum við að yfirfæra verkferla og meðal annars mun það fela í sér innleiðingu á þessari reglu,“ segir Svanhvít.
