Enski boltinn

Yfirgaf lið Arons og Daníels og fór í ensku úrvalsdeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fredrik Ulvestad.
Fredrik Ulvestad. Vísir/Getty
Aron Elís Þrándarson og Daníel Leó Grétarsson munu ekki spila með Fredrik Ulvestad á sínu fyrsta ári í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta því norski miðjumaðurinn er kominn í ensku úrvalsdeildina.

Burnley gerði þriggja ára samning við leikmanninn en á heimasíðu Burnley er haft eftir knattspyrnustjóranum Sean Dyche að hann ætli að gefa Ulvestad tíma til að aðlagast lífinu á Englandi.

Ulvestad valdi það að fara til Englands frekar en að semja við lið í þýsku deildinni en hann var með lausan samning hjá norska félaginu.  

Fredrik Ulvestad er 22 ára gamall og hefur spilað 106 leiki með Aalesund frá árinu 2011 en hann er fæddur og alinn upp í Álasundi.

Ulvestad er þriðji leikmaðurinn sem fer frá Álasund-liðinu til liðs í ensku úrvalsdeildinni á síðustu árum. Hinir eru markvörðurinn Anders Lindegaard sem fór til Manchester United og Jonathan Parr sem fór til Crystal Palace.

Aron Elís Þrándarson kom til Álasund-liðsins frá Víkingi þar sem hann var með 5 mörk í 16 leikjum í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð. Daníel Leó Grétarsson kom til félagsins frá Grindavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×