Enski boltinn

Platini: Eignarhald þriðja aðila er þrælahald sem á heima í fortíðinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Michel Platini vill ekki sjá eignarhald þriðja aðila.
Michel Platini vill ekki sjá eignarhald þriðja aðila. vísir/afp
Michel Platini, forseti evrópska knattspyrnusambandsins, gefst ekki upp í baráttunni gegn eignarhaldi þriðja aðila í fótboltanum.

Mikið er um það í knattspyrnuheiminum í dag að leikmaður sé í raun í eigu viðskiptajöfurs eða skúffufyrirtækja þeirra.

Þriðji aðilinn fær svo skerf af söluverði leikmannsins þegar hann er seldur á milli félaga og þannig verður mikið um að slíkir leikmenn staldra stutt við á sama stað.

Þetta hefur verið bannað í ensku úrvalsdeildinni síðan 2008 eftir farsann í kringum Carlos Tévez og Javier Mascherano hjá West Ham, en annars staðar er þetta leyft.

„Það er skammarlegt að sjá leikmenn í dag þar sem handleggur viðkomandi er kannski í eigu einnar persónu og fótleggurinn er í eigu lífeyrisjóðs einhverstaðar og svo á þriðji aðilinn allan fótinn,“ segir Platini.

„Þetta er til skammar. Þetta er ekkert annað en þrælahald sem á heima í fortíðinni. Ég hef sett mikla pressu á FIFA að banna eignarhald þriðja aðila.“

„Það er kominn tími til að fótboltinn vakni til lífsins og að peningar sem koma inn í fótboltann haldist þar en hverfi ekki í vasa einhverja manna,“ segir Michel Platini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×