Erlent

Staðsetningartæki MH370 rafmagnslaust ári áður en vélin hvarf

Samúel Karl Ólason skrifar
Ítarleg skýrsla um hvarf malasísku flugvélarinnar og leitina var birt í dag.
Ítarleg skýrsla um hvarf malasísku flugvélarinnar og leitina var birt í dag. Vísir/AFP
Staðsetningartæki flugvélar Malaysia Airlines, MH370, var rafmagnslaust og hafði verið það í heilt ár, áður en vélin hvarf sporlaust á leiðinni frá Kuala Lumpur til Peking fyrir ári síðan. Ítarleg skýrsla um hvarf malasísku flugvélarinnar og leitina var birt í dag.

Í skýrslunni koma þá hvergi fram nýjar upplýsingar sem gætu varpað ljósi á örlög flugvélarinnar og 239 farþega hennar. Þrátt fyrir umfangsmikla leit hefur hvorki tangur né tetur fundist af vélinni.

AP fréttaveitan hefur eftir Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, að leitinni yrði ekki hætt fyrr en vélin fyndist.

Skýrslan er 584 blaðsíður og var samin af 19 sérfræðingum. Í henni er að sjá fjölmargar upplýsingar um áhöfn vélarinnar eins og sjúkrasögur og fjármálaupplýsingar. Einnig er farið út í viðhald og ástand vélarinnar. Allar upplýsingar, að rafmagnsleysi staðsetningartækisins undanskildu, gefa í skyn að ekkert óeðlilegt hafi átt sér stað áður en vélinni var flogið af stað.

Þar segir að ekki hafi uppgötvast að rafhlaðan í tækinu væri tóm vegna skráningarvillu. Viðhaldsaðilar áttuðu sig ekki á að skipta þyrfti um rafhlöðu.

Í vélinni voru alls 221 kíló af farsímarafhlöðum frá Motorola en þær voru skoðaðar degi áður en vélin tók á loft. Rafhlöðurnar voru ekki skilgreindar sem hættulegur farmur.

Fjölskyldumeðlimir þeirra sem fórust með vélinni héldu í dag minningarathöfn í Kuala Lumpur þar sem lesin voru ljóð og fólk bað saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×