Þetta ofurheilsuskot er alveg hreint magnað. Það er stútfullt af bólgueyðandi og hreinsandi efnum sem koma þér á heilsusamlegan hátt í gegnum veturinn og flensutíðina.
Uppskriftin er vikuskammtur af drykknum.
Ofurheilsuskot
200 g ferskt engifer
150 g ferskt túrmerik
safi af 1 sítrónu
4 hvítlauksrif
1 tsk chili flögur
Notið gúmmíhanska til þess að flysja túrmerikið og engiferið. Túrmerikið gefur frá sér mikinn lit sem erfitt er að ná úr og mæli ég því með því að nota gúmmíhanska. Skerið ræturnar niður í minni bita og setjið í matvinnsluvél ásamt sítrónusafa, hvítlauk og chili flögum. Vinnið hráefnið vel saman. Sigtið safann frá í sultukrukku eða annað ílát sem að safinn geymist vel í og hendið hratinu eða frystið í klakaboxum og notið í hrisstinga. Lokið krukkunni og geymið í kæli.
Eitt skot er svona um það bil 4-5 góðar matskeiðar. Mér finnst best að fá mér nokkra góða dropa af fljótandi D-vítamíni undir tunguna og fá mér svo skotið í kjölfarið.