Innlent

Segir hugrekkið í víkingablóðinu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Vestur- íslenskur ofurhugi ætlar á næstu dögum að hlekkja sig við brennandi víkingaskip í Reykjavíkurhöfn, reyna að losa sig og synda í land áður en hann verður eldinum að bráð. Hann segir hugrekkið víkingablóðinu að þakka. 

Dean Gunnarsson, sem er frá Winnipeg í Kanada, er staddur hér á landi ásamt tíu manna tökuliði sjónvarpsþáttarins Escape or die!, en í þættinum er fylgst með Dean þar sem hann ferðast um heiminn og reynir að bjarga sér úr lífshættulegum aðstæðum.

Til stóð að gjörningurinn færi fram við Sólfarið í kvöld, en tökuliðið neyddist til að hætta við vegna veðurs. Dean segist vona að móðir náttúra geri þeim kleift að láta til skarar skríða á næstu dögum.

„Það eru allir að segja við mig að maður þurfi oftast bara að bíða í fimm mínútur eftir að veðrið á Íslandi breytist, svo vonandi breytist það okkur í hag.“

Dean er öllu vanur og hefur unnið við að framkvæma áhættugjörninga víðsvegar um heiminn síðustu ár. Hann hefur meðal annars verið grafinn lifandi í París og hent handjárnuðum út úr flugvél í Japan. Hann segist hafa verið staðráðin í að fara til Íslands til að gera þættina, enda á hann ættir að rekja hingað til lands.

„Það rennur víkingablóð í mínum æðum og það gerir mig sterkari til að takast á við þessa áskorun. Vonandi hjálpar það mér að komast lifandi af víkingaskipinu, ég vil síður að það breytist í Valhöll,“ segir hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×