Jól

Gæludýrin veikjast af jólamat og skrauti

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Hrafna, sem er af kyninu Siberian husky, og Gerard, af kyninu Petit brabancon, hjá Kristbjörgu Söru Thorarensen, dýralækni á Dýraspítalanum í Garðabæ. Hún segir að töluvert sé leitað á dýraspítalann með gæludýr í kringum hátíðirnar.
Hrafna, sem er af kyninu Siberian husky, og Gerard, af kyninu Petit brabancon, hjá Kristbjörgu Söru Thorarensen, dýralækni á Dýraspítalanum í Garðabæ. Hún segir að töluvert sé leitað á dýraspítalann með gæludýr í kringum hátíðirnar. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Konfekt og glitþræðir og margt annað sem tilheyrir undirbúningi jólanna fer illa í hunda og ketti og stundum svo illa að dýrin verða fárveik. Við þessu er varað í fréttatilkynningu sem sænskt dýratryggingafélag, Sveland djurförsäkringar, hefur séð ástæðu til að senda frá sér nú á aðventunni.

Hundar eru sólgnir í súkkulaði og ýmislegt annað góðgæti sem er á borðum á aðventunni en bæði hundar og kettir geta orðið fárveikir af því sem þeir gæða sér á á þessum árstíma.

Kristbjörg Sara Thorarensen, dýralæknir á Dýraspítalanum í Garðabæ, segir töluvert leitað á dýraspítalann í kringum hátíðirnar. Margar hefðir hátíðanna henti ekki gæludýrum. „Til dæmis getur reykt og saltað kjöt ásamt súkkulaði valdið alvarlegum veikindum hjá hundum og köttum. Margir kettir eru glysgjarnir og hrífast af pakkaböndum sem sumir éta. Það getur leitt til mjög alvarlegra veikinda í meltingarfærum sem í sumum tilfellum endar með skurðaðgerð til þess að fjarlægja aðskotahlutinn. Einnig ber að hafa í huga að þótt plöntur eins og jólarósin séu fallegar er hún eitruð fyrir ketti.“

Á heimasíðu sænska dýratryggingafélagsins er listi með ýmsu sem hafa ber í huga til þess að gæludýrin njóti jólanna eins og aðrir á heimilinu.

Hættulegur jólamatur

Súkkulaði - Efnið teóbrómín, sem er í kakói, getur valdið eitrun hjá dýrum. Einkennin eru ógleði, uppköst, niðurgangur og þvagleki. Efnið getur einnig valdið flogaköstum, innri blæðingum og hjartaáfalli.

Rúsínur og kúrenur - Neysla rúsína og kúrena getur valdið xylitol-eitrun hjá hundum og köttum. Einkennin eru uppköst, niðurgangur, þreyta og svimi.

Beiskar möndlur - Sýaníð í möndlunum getur verið banvænt sé þess neytt í miklu magni. Einkennin eru máttleysi, ógleði, uppköst og meðvitundarleysi.

Laukur -  Í lauk er efnið allisín sem getur valdið eitrun hjá hundum og köttum. Einkennin eru blóðleysi, lystarleysi, niðurgangur, uppköst, hröð öndun og hraður hjartsláttur auk kviðverkja.

Hættulegt jólaskraut

Glitþræðir og pakkabönd - Ef dýr gleypa glitþræði og pakkabönd geta þau orðið alvarlega veik í meltingarfærum.

Glerkúlur - Hundar og kettir geta skorið sig á glerkúlum og öðru jólaskrauti sem brotnar.

Aðventustjakar - Það getur kviknað í rófum á köttum sem rekast utan í kertaljós. Hundar geta líka velt kertastjökum um koll.

Jólatrésfóturinn - Ekki er skynsamlegt að setja áburð fyrir jólatréð í vatnið í jólatrésfætinum. Hundar og kettir eiga það til að lepja vatnið.

Jólarós - Blómið getur valdið eitrun hjá köttum.






×