„Við höfum bæði gefið út jólaplötur á undanförnum árum sem hafa verið með nýjum jólalögum. Hans plata var með stærri hljómsveit og stærra „sound“-i en mín var aðeins minni og með einfaldari hljóðheim. Það var því lógískt að við héldum tónleika saman,“ segir söngkonan Sigríður Thorlacius. Hún heldur jólatónleika í Eldborgarsal Hörpu þann 17. desember ásamt tónlistarmanninum Sigurði Guðmundssyni.
„Við höfum náttúrulega sungið milljón sinnum saman. Við höfum oft sungið með fleirum og ég hef sungið á jólatónleikum sem Siggi hefur haldið. Núna ákváðum við að hafa þetta stærra í sniðum og í stærra rými. Gera þetta dálítið grand,“ bætir Sigríður við.
„Inntak laganna er það sem er í alvöru hátíðlegt við jólin. Það er ekki mikill æsingur, sem ég hef aldrei verið hrifin af. Þess vegna vildum við halda tónleikana rétt fyrir jól því við höfum hvorugt áhuga á að syngja jólamúsík alltof snemma,“ segir Sigríður en þau Siggi ætla að gefa út nýtt lag saman í vikunni.
„Þetta er lag eftir Sigga sem heitir Freistingar. Það er ekki jólalag en það má auðvitað spila það á jólunum eins og öll önnur lög,“ segir Sigríður kát í bragði. Miðasala á jólatónleikana hefst 2. október.
Vilja ekki syngja jólamúsík alltof snemma
