Sport

Stefnan að koma keilara í fremstu röð innan tíu ára

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Sigurðsson, Theodóra Ólafsdóttir, Arnar Sæbergsson og Þórarinn Þorbjörnsson, formaður KLÍ.
Guðmundur Sigurðsson, Theodóra Ólafsdóttir, Arnar Sæbergsson og Þórarinn Þorbjörnsson, formaður KLÍ. Vísir/valli
„Við erum að fara af stað með nýja afreksstefnu og hluti af henni er að fastráða landsliðsþjálfarana,“ segir Ásgrímur Helgi Einarsson, formaður landsliðsnefndar Keilusambands Íslands, í samtali við Fréttablaðið. Keilusambandið gekk frá ráðningu þriggja landsliðsþjálfara í gær en samið var við þá alla til tveggja ára.

Arnar Sæbergsson er nýr þjálfari karlalandsliðsins og Theodóra Ólafsdóttir, sem stýrt hefur kvennaliðinu, er nú orðin fastráðin. Þá er Guðmundur Sigurðsson frá Akranesi nýr þjálfari ungmennalandsliðsins.

„Við erum að horfa til þess að setja starf okkar í fastari skorður. Við erum bara algjörlega að taka afreksmál okkar í gegn. Þetta snýst um hvar við viljum vera eftir 5-10 ár og hvert við stefnum á heimsmeistaramótum.“

Metnaður er í nýrri afreksstefnu Keilusambandsins en í henni segir að framtíðarsýnin sé að eignast áhuga- og/eða atvinnukeilara í fremstu röð innan tíu ára. Á sama tíma vill KLÍ eignast a.m.k. tíu íslenska keilara sem verða þátttakendur á sterkustu mótum Evrópu.

Til að ná þessum markmiðum mun KLÍ einblína á að fjölga afrekskeilurum og styðja við þá sem þegar standast viðmið sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×