Varahluti, takk! Teitur Guðmundsson skrifar 25. mars 2014 07:00 Við erum orðin býsna vön því að geta farið með tæki og tól og látið gera við þau, eða keypt varahluti svo áfram sé hægt að tryggja notagildi þeirra. Það er ekkert tiltökumál að skipta um kúplingu í bíl eða kaupa ný blekhylki í prentarann. Við hreinlega gerum ráð fyrir því að mögulegt sé að bregðast við með einhverjum hætti nú til dags. Okkur hefur þó verið kennt að við eigum bara einn líkama og að við verðum að passa hann vel. Það er í töluverðri mótsögn við marga aðra hluti í lífinu og því eðlilegt að við spyrjum okkur um möguleikana á varahlutum fyrir líkamann. Þar líkt og annars staðar hefur orðið mikil þróun á undanförnum árum og má með sanni segja að við eigum í dag töluvert af „varahlutum“ tengdum hinum ýmsu vandamálum og sjúkdómum sem betur fer. Það virðist þó vera að gerast á meiri hraða en við höfum átt að venjast og kannski verður læknisfræði að vissu leyti gjörbreytt fag eftir aðeins fáein ár eða áratugi. Ný tækni og önnur nálgun hefur gert það að verkum að við erum bæði fljótari og markvissari en áður, auk þess sem „varahlutirnir“ eru að verða sérhannaðir fyrir hvern og einn einstakling í staðinn fyrir að vera fjöldaframleiðsluvara. Tökum nokkur skemmtileg en mismunandi dæmi. Við höfum um langt skeið skipt út hjartalokum hjá einstaklingum sem einhverra hluta vegna skemmast eða breytast. Þar geta verið margar orsakir að baki, en valið stendur um lífræna loku úr dýraríkinu eða loku úr málmblöndu þegar kemur að viðgerð. Hvorutveggja er bundið ákveðnum aukaverkunum, líftíma varahlutarins og lyfjameðferð í kjölfarið. Ýmsar viðgerðir fara fram á æðakerfinu til að viðhalda flæði og lífi í hjarta og útæðakerfi og er notast við margs konar gerviefni, t.a.m. polyester og goretex í því skyni svo dæmi séu tekin.Málmar og plastefni Þá má ekki gleyma málmi og plastefnum sem lengi hafa verið notuð í gerviliði, með mjög góðum árangri. Líklega með algengari ástæðum fyrir því að fá slíka varahluti eru mjaðmarbrot eldra fólks eftir fall eða áverka. Auðvitað getum við líka gert við heyrnina hjá hluta einstaklinga með því að setja inn ný heyrnarbein eða jafnvel gervihljóðhimnu. Ekki þykir heldur neitt tiltökumál að vera kominn með nýjan augastein eftir því sem árin líða og sjónin versnar. Vanti konur stærri brjóst þá er hægt að kippa því í liðinn með mismiklu magni af sílikoni og svona mætti lengi telja. Munurinn á öllum þessum aðferðum er sá að í öllum tilvikum er verið að vinna með aðskotahluti í líkamanum sem hann getur hafnað á dramatískan hátt, eða unnið gegn með erfiðum afleiðingum fyrir þann sem á í hlut. Iðulega þarf einhvers konar aðgerð til að koma varahlutnum fyrir sem getur valdið sýkingum til skemmri eða lengri tíma. Það getur því verið lífshættulegt að fá slíka aðskotahluti í líkamann en á sama tíma lífsbjargandi fyrir marga. Draumurinn hefur alla tíð verið sá að geta búið til varahlutina úr efni sem líkaminn þekkir og samþykkir auk þess að geta sniðið þá nákvæmlega eins og þeir eiga að vera og á sem skemmstum tíma. Nýjasta tækni á sviði stofnfrumna, þrívíddarprentunar og efna sem líkaminn getur losað sig við sem stoðgrind í upphafi er orðin að veruleika. Óljóst er enn hversu vel þessir vefir endast og hver virkni þeirra verður en ljóst er að geta okkar til að framleiða varahluti hefur aldrei verið meiri en nú. Þrátt fyrir það gildir enn að fara vel með það sem þér var gefið, þú færð bara einn líkama og við eigum enn nokkuð í land að ná bíla- og tölvuframleiðendum á þessu sviði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Teitur Guðmundsson Mest lesið Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Veðurstofa Sjálfstæðisflokksins frestar fundi Daníel Hjörvar Guðmundsson Skoðun Halldór 28.12.2024 Halldór Orkuverð og sæstrengir Anna Sofía Kristjánsdóttir Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Við erum orðin býsna vön því að geta farið með tæki og tól og látið gera við þau, eða keypt varahluti svo áfram sé hægt að tryggja notagildi þeirra. Það er ekkert tiltökumál að skipta um kúplingu í bíl eða kaupa ný blekhylki í prentarann. Við hreinlega gerum ráð fyrir því að mögulegt sé að bregðast við með einhverjum hætti nú til dags. Okkur hefur þó verið kennt að við eigum bara einn líkama og að við verðum að passa hann vel. Það er í töluverðri mótsögn við marga aðra hluti í lífinu og því eðlilegt að við spyrjum okkur um möguleikana á varahlutum fyrir líkamann. Þar líkt og annars staðar hefur orðið mikil þróun á undanförnum árum og má með sanni segja að við eigum í dag töluvert af „varahlutum“ tengdum hinum ýmsu vandamálum og sjúkdómum sem betur fer. Það virðist þó vera að gerast á meiri hraða en við höfum átt að venjast og kannski verður læknisfræði að vissu leyti gjörbreytt fag eftir aðeins fáein ár eða áratugi. Ný tækni og önnur nálgun hefur gert það að verkum að við erum bæði fljótari og markvissari en áður, auk þess sem „varahlutirnir“ eru að verða sérhannaðir fyrir hvern og einn einstakling í staðinn fyrir að vera fjöldaframleiðsluvara. Tökum nokkur skemmtileg en mismunandi dæmi. Við höfum um langt skeið skipt út hjartalokum hjá einstaklingum sem einhverra hluta vegna skemmast eða breytast. Þar geta verið margar orsakir að baki, en valið stendur um lífræna loku úr dýraríkinu eða loku úr málmblöndu þegar kemur að viðgerð. Hvorutveggja er bundið ákveðnum aukaverkunum, líftíma varahlutarins og lyfjameðferð í kjölfarið. Ýmsar viðgerðir fara fram á æðakerfinu til að viðhalda flæði og lífi í hjarta og útæðakerfi og er notast við margs konar gerviefni, t.a.m. polyester og goretex í því skyni svo dæmi séu tekin.Málmar og plastefni Þá má ekki gleyma málmi og plastefnum sem lengi hafa verið notuð í gerviliði, með mjög góðum árangri. Líklega með algengari ástæðum fyrir því að fá slíka varahluti eru mjaðmarbrot eldra fólks eftir fall eða áverka. Auðvitað getum við líka gert við heyrnina hjá hluta einstaklinga með því að setja inn ný heyrnarbein eða jafnvel gervihljóðhimnu. Ekki þykir heldur neitt tiltökumál að vera kominn með nýjan augastein eftir því sem árin líða og sjónin versnar. Vanti konur stærri brjóst þá er hægt að kippa því í liðinn með mismiklu magni af sílikoni og svona mætti lengi telja. Munurinn á öllum þessum aðferðum er sá að í öllum tilvikum er verið að vinna með aðskotahluti í líkamanum sem hann getur hafnað á dramatískan hátt, eða unnið gegn með erfiðum afleiðingum fyrir þann sem á í hlut. Iðulega þarf einhvers konar aðgerð til að koma varahlutnum fyrir sem getur valdið sýkingum til skemmri eða lengri tíma. Það getur því verið lífshættulegt að fá slíka aðskotahluti í líkamann en á sama tíma lífsbjargandi fyrir marga. Draumurinn hefur alla tíð verið sá að geta búið til varahlutina úr efni sem líkaminn þekkir og samþykkir auk þess að geta sniðið þá nákvæmlega eins og þeir eiga að vera og á sem skemmstum tíma. Nýjasta tækni á sviði stofnfrumna, þrívíddarprentunar og efna sem líkaminn getur losað sig við sem stoðgrind í upphafi er orðin að veruleika. Óljóst er enn hversu vel þessir vefir endast og hver virkni þeirra verður en ljóst er að geta okkar til að framleiða varahluti hefur aldrei verið meiri en nú. Þrátt fyrir það gildir enn að fara vel með það sem þér var gefið, þú færð bara einn líkama og við eigum enn nokkuð í land að ná bíla- og tölvuframleiðendum á þessu sviði.