ÍR-ingar héngu í Grindvíkingum lengi vel þrátt fyrir vissa yfirburði Íslandsmeistaranna en Breiðhyltingar gáfust aldrei upp. Þeir gulu fóru að sigla fram úr í fjórða leikhluta og unnu á endanum tólf stiga sigur.
Sveinbjörn Claessen, leiðtogi ÍR-liðsins, skoraði mest fyrir Breiðhyltinga eða 18 stig.
Mikil bæting
Lewis Clinch, Bandaríkja-maðurinn í liði Grindavíkur, var mjög góður í leiknum með 20 stig og 9 stoðsendingar.
Það var þó mikil bæting fimm leikmanna Grindavíkur: Jóhanns Árna Ólafssonar, Ómars Sævarssonar, Þorleifs Árna Ólafssonar, Ólafs Ólafssonar og Sigurðar Gunnar Þorsteinssonar, sem gerði það helst að verkum að Grindavík vann leikinn.
Þeir áttu allir nokkuð dapran dag þegar liðið tapaði fyrir Stjörnunni í úrslitum í fyrra og voru staðráðnir í að bæta fyrir það.
Allir fimm skoruðu meira en í úrslitaleiknum í fyrra, skotnýting fimmmenninganna var betri og þá var heildarframlag allra hærra en á síðasta ári. Samtals skoruðu þeir 39 stig í fyrra en 59 stig í ár.
Skotnýtingin hækkaði úr 29,7 prósentum í 52,3 prósent og þá hækkaði framlagið hjá þeim fimm samtals úr 39 í 82.
Íslands- og bikarmeistararnir fengu framlag úr öllum áttum en Jón Axel Guðmundsson, sonur goðsagnarinnar Guðmundar Bragasonar, spilaði rúmar 16 mínútur og stóð sig frábærlega.
Hann skoraði tíu stig og var með 100 prósenta skotnýtingu, þar af tvær þriggja stiga körfur. Eftirminnilegur dagur fyrir hann sem og aðra Grindvíkinga. Bikarinn loksins kominn í Röstina eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir á undanförnum árum.
