Fjalar Úlfarsson, landsliðsþjálfari Íslands í alpagreinum, þarf oft að hafa mikið fyrir því að koma græjum íslenska Ólympíuhópsins á milli staða.
Fjalar hefur verið með íslensku keppendunum í alpagreinum ytra meira og minna síðan í ágúst. Hópurinn hefur ýmist verið í Austurríki eða Noregi.
Allajafna flýgur íslenska skíðafólkið frá einum stað til annars þó að undantekningar séu á því. Í öllum tilfellum keyrir landsliðsþjálfarinn, Fjalar Úlfarsson, Toyota Hiace sendibíl staðanna á milli. Bíltúrarnir geti verið langir.
„Þau stíga kannski upp í vél í Noregi og fljúga til München. Svo keyri ég bílinn til Þýskalands og sæki þau á flugvöllinn,“ segir Fjalar.
Mikil hagræðing fylgir því að vera með stóra bifreið til að ferja bæði fólk og allan þann farangur sem afreksfólki í skíðaíþróttum fylgir.
„Það var verið að áætla þyngd farangurs okkar til Sotsjí. Ég verð sjálfur með 180-190 kg,“ segir Fjalar og á aðeins við æfingabúnað liðsins. Skíðafólkið taki sinn búnað með og er hvert með tæplega 100 kg þungan farangur.
