Hinn 37 ára gamli Manning er hins vegar hógværðin uppmáluð og lætur yfirleitt duga að láta verkin tala. Hann gerir yfirleitt lítið úr eigin framlagi og er duglegur að lofa liðsfélaga sína þegar vel gengur.
Það er sannarlega réttnefni að kalla útherjasveit Mannings vopnabúr en það eru þeir leikmenn sem hafa það hlutverk að grípa sendingar leikstjórnandans. Í fyrsta sinn í sögunni eru nú fimm leikmenn í sama liðinu með minnst tíu snertimörk yfir tímabilið. Þeir eru útherjarnir Demaryius Thomas, Eric Decker og Wes Welker, innherjinn Julius Thomas og hlauparinn Knowshon Moreno.

Vörn Seattle fer yfirleitt fremst í sínum flokki og tölfræðin sannar það. Vörnin fékk fæst stig á sig allt tímabilið, fæsta sendingarjarda á sig að meðaltali í leik og átti flesta stolna bolta eða 39 talsins yfir árið. Flest inngrip á hinn málglaði bakvörður, Richard Sherman, eða átta talsins en hann var einn þriggja varnarmanna liðsins sem komust í úrvalslið NFL-deildarinnar í ár. Hinir eru Earl Thomas og Kam Chancellor – allir meðlimir hinnar rómuðu Sprengjusveitar.
Super Bowl verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD í kvöld. Upphitun hefst klukkan 22.00 en leikurinn sjálfur klukkan 23.25. Andri Ólafsson stýrir umræðum á meðan leiknum stendur og áhorfendur eru hvattir til að taka þátt á Twitter með merkinu #NFLisland.