Eigandi staðarins, veitingamaðurinn Jóhannes Stefánsson í Múlakaffi, hafnar því hinsvegar að þau séu á staðnum. „Nei, nei, nei. Það getur ekki staðist,“ sagði hann aðspurður hvort hann væri að hýsa tónlistarfólkið bandaríska.
Nútíminn segist hafa heimildir fyrir hinu gagnstæða.

Ómerktur öryggisvörður vísaði ljósmyndaranum af svæðinu og beið eftir að hann keyrði í burtu. Þá tók öryggisvörðurinn mynd af honum.
Sumarhúsið sem um ræðir gengur undir nafninu The Trophy Lodge en það er í útjaðri sumarbústaðahverfisins. Ekki er hægt að keyra upp að því vegna öryggisgæslu. Í gegnum árin hafa mörg fyrirmenni og stórstjörnur gist í húsinu.

Flugupplýsingar sýna einnig að einkaþota af gerðinni Gulfstream lenti á Reykjavíkurflugvelli rúmlega átta í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum um ferðir þotunnar kom hún frá Teterboro flugvellinum í New York, þar sem hjónin eru búsett.
Það hefur þó ekki verið staðfest að þau hafi verið farþegar í flugvélinni.