Innlent

Veðurstofa varar við aftakaveðri: Frystitogari fastur í Ísafjarðardjúpi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Birta Líf spáir aftakaveðri með glórulausum byl á norðanverðum Vestfjörðum.
Birta Líf spáir aftakaveðri með glórulausum byl á norðanverðum Vestfjörðum. vísir/gva/Eiríkur Jónsson
„Það er nú nokkuð erfitt að segja hvernig veðrið er, það sést ekkert útum neina glugga hér í skipinu,“ segir Sigurbjörn E. Kristjánsson, skipstjóri á frystitogaranum Vigra, en skipið liggur í vari í Ísafjarðardjúpi, undir Grænuhlíð.

Veðurstofa Íslands varar við aftakaveðri með glórulausum byl sem að horfur eru á skelli á norðanverðum Vestfjörðum og mun standa fram undir kvöld. 

Veðurhæð verður óvenjumikil í öllum skilningi og vindur norðanstæður. 

„Það er hávaðarok hér. Við keyrum upp að Grænuhlíðinni og látum okkur reka niður í djúpið. Við verðum líklega fastir hér fram á fimmtudag,“ segir Sigurbjörn. 

Hann segir töluverða bræla vera á svæðinu. 

Farnir að föndra fyrir jólin

„Hér eru menn samt mjög léttir og farnir að föndra fyrir jólin. Við ráðum ekkert við þetta og verðum því bara að gera það besta úr stöðunni.“

Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur, segir í samtali við fréttastofu Bylgjunnar að stormurinn hafi hafist milli klukkan tvö og þrjú í dag.

„Í kvöld verður líklega það versta farið framhjá, þó verður áfram stormur og vont veður. Við erum að spá upp að 35 metrum á sekúndu sem er fellibylsstyrkur.“

Birta segir að stormurinn verði mjög öflugur, sérstaklega á norðanverðum Vestfjörðum.

„Það er bara spurning hversu djúpt þetta nær niður í dalina. Það verður ekkert ferðaveður og fólk á í raun ekkert að vera útivið á þessum slóðum í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×