Innlent

Draumaborðið kom fljúgandi inn um gluggann

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sigfríður Björnsdóttir, íbúi í Hlíðunum í Reykjavík, fékk óvænta og óskemmtilega sendingu inn um rúðuna á heimili sínu í kvöld. Sigfríður segir að hún hafi lengi látið sig dreyma um að eignast lítið en veglegt borð á borð við þetta til að hafa á svölunum.

„Ég vissi að maður skyldi vanda óskir sínar,“ segir Sigfríður sem deildi óheppni sinni með vinum og vandamönnum á Facebook í kvöld.

„En (mér) datt aldrei í hug að nákvæmlega svona borð myndi koma fljúgandi inn um gluggann hjá mér á óveðurskvöldi - bókstaflega!“

„Við sátum bara að borða, fjölskyldan, þegar við heyrðum þennan líka hvell,“ sagði Sigríður þegar fréttamaður Vísis heilsaði upp á hana. „Við veltum fyrir okkur í smá stund hvort þetta hefði komið frá okkur og þá var það raunin.“

Lítið borð hafði þá tekist á loft, einhversstaðar í nágrenninu, og hafnað í glugga Sigfríðar. Glugginn var á svefnherbergi en íbúðin er á annari hæð í húsinu. Sigfríður þakkar hjálparsveitarmönnum kærlega fyrir veitta aðstoð. Þeir hafi mætt, hressir og glaðir, og skellt plötu í gatið.

„Ef einhver kannast við borðið hálffleyga þá má hann gjarnan hafa samband. Annars er ég jafnvel að spá í að lagfæra það og eiga það sjálf. Mig hefur lengi langað í svipað borð og nú á ég þannig. Þetta er meira að segja borð með sögu, í raun frægt borð,“ sagði hún skömmu áður fréttamaður kvaddi hana.

Vinir Sigfríðar þakka fyrir að enginn hafi slasast og einn slær á létta strengi og segist hafa heyrt um fljúgandi teppi - en fljúgandi borð, það sé annar handleggur.


Tengdar fréttir

Þakplötur fuku á bíl á ferð við Álftamýri

Björgunarsveitarmenn vinna nú að því að rýma bílastæði í grenndinni til þess að forða frekara tjóni. Það er of hvasst á þaki hússins til þess að hægt sé að festa plöturnar niður þar og verður það gert þegar fer að lægja.

Jólatré í miklu basli

Jólatréð við Miklubraut nærri Elliðarárnum er farið að halla verulega og stjarnan er fallinn af toppi Óslóartrésins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×