Lífið

Bubbi reddaði Bob Dylan hassi

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Tveir kóngar. Bob Dylan til vinstri, Bubbi til hægri.
Tveir kóngar. Bob Dylan til vinstri, Bubbi til hægri.
Vefsíðan Lemúrinn birti í maí í fyrra grein um tónleika Bob Dylan á Íslandi árið 1990 en hann tróð upp í Laugardalshöll það árið á vegum Listahátíðar í Reykjavík.

Greinin hefur fengið nýtt líf á internetinu eftir að tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens skrifaði athugasemd við hana í gær og sagðist hafa séð um það að Bob Dylan fengi sín fíkniefni á Íslandi.

„Það var ekkert hass í bænum. Ég var beðinn um að redda hassi fyrir Dylan og hljómsveit,“ skrifar Bubbi og bætir við að hann hafi þurft að finna efnið utan Reykjavíkur.

„Þurfti ég að skreppa út fyrir borgarmörkin og gat reddað 11 grömmum af gæðaefni. Allir mjög glaðir.“

Bubbi segir að Dylan og hans fylgdarlið hafi reykt hassið áður en þeir stigu á svið í Laugardalshöll. Í grein Lemúrsins kemur fram að ekki hafi allir verið sáttir við tónleika goðsins en Bubbi var sáttur.

„Mér fannst þetta magnaðir tónleikar. Þeir voru með 3 sett tilbúin og hljómsveitarstjórinn sagði mér að þeir vissu ekkert á hvaða lagi Dylan myndi byrja en þeir þurftu að vera klárir á 60 lögum. Hann sagði mér líka að þetta hefði verið í fyrsta skipti í mjög langan tíma sem Dylan hefði talað á tónleikum,“ skrifar Bubbi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.