Lífið

Uppnám á Airwaves: Grímum Reykjavíkurdætra stolið

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Reykjavíkurdætur koma fram á Airwaves á laugardag.
Reykjavíkurdætur koma fram á Airwaves á laugardag.
Sex grímum Reykjavíkurdætra var stolið af skemmtistaðnum Prikinu í gærkvöldi. Meðlimir rappsveitarinnar ætluðu að nota grímurnar þegar þær koma fram á tónleikahátíðinni Iceland Airwaves um helgina.

Tinna Sverrisdóttir, ein Reykjavíkurdætra, segir að grímurnar hafi horfið um klukkan ellefu í gærkvöldi. „Þær voru í rauðum poka klukkan ellefu í gær á Prikinu. Vinkona mín var með þær en fór á klósettið og þegar hún kom til baka var pokinn horfinn með öllum grímunum,“ segir hún.

„Við Reykjavíkurdætur erum að nota þetta í atriði á Airwaves. Þetta er aðalatriðið mitt sem allar þessar grímur verða í. Mér finnst þetta mjög mikilvægt,“ segir hún.

Tinna segist ekki vera búin að fá neinar ábendingar um hvar grímurnar séu niðurkomnar. Hún býður þeim sem tók grímurnar að skila þeim og að með því ljúki málinu. „Ég bið um grímurnar í kærleik og ég vona að ég fái þær í kærleik til baka,“ segir hún.

„Ég held að það skili sér ekki að vera með hótanir, þá held ég að það sé ekki líklegt að fólk gefi sig fram. Sá hinn sami má bara skila pokanum á Prikið og þar með sleppur hann því að lenda í Reykjavíkurdætrum,“ segir Tinna.

Reykjavíkurdætur koma fram á Airwaves á laugardag og segir Tinna að grímurnar þurfi að vera búnar að skila sér fyrir hádegi þann dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×