Íslenski boltinn

Ólína yfirgefur Val eins og Hallbera

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir í leik með Val á móti Fylki í sumar.
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir í leik með Val á móti Fylki í sumar. Vísir/Daníel
Valsmenn halda áfram að missa reynslumikla bakverði úr kvennaliðinu sínu en Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir skrifaði í dag undir samning við Fylki eins og kemur fram á fótbolti.net.

Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir hefur spilað með Val í eitt og hálf ár síðan að hún kom heim úr atvinnumennsku en hún tilkynnti á dögunum að hún gæfi ekki lengur kost á sér í íslenska landsliðið.

Ólína var með 4 mörk í 15 leikjum með Valsliðinu í Pepsi-deild kvenna í sumar en Valskonur enduðu í 7. sæti og hafa aldrei verið neðar.  Valsliðið missti á dögunum landsliðskonuna Hallberu Guðnýju Gísladóttur í Breiðablik.

Fylkiskonur slógu í gegn á sínu fyrsta ári í deildinni, náðu 5. sæti í deildinni og féllu út í vítakeppni í undanúrslitum bikarsins.

„Ég er ótrúlega ánægð með þetta. Ég heillaðist af metnaðinum og kraftinum sem ég fann hérna og langaði rosalega mikið að taka þátt í því," sagði Ólína í samtali við blaðamann fótbolta.net sem fékk að vera viðstaddur þegar Ólína skrifaði undir samninginn í dag.

Ólína Guðbjörg var ekki lengi að hugsa sig um þegar Fylkismenn höfðu samband en Jörundur Áki Sveinsson mun þjálfa liðið og Þóra Björg Helgadóttir aðstoðar hann.

„Þetta var ákveðið á einum degi. Þegar ég heyrði í þjálfurunum, stjórninni og ráðinu þá sannfærðist ég strax. Ég er mjög spennt fyrir þessu," sagði Ólína í fyrrnefndu viðtali á fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×