Íslenski boltinn

Harpa: Ég er ótrúlega gæfurík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir.
Harpa Þorsteinsdóttir. Vísir/Daníel
Harpa Þorsteinsdóttir var í kvöld kosin besti leikmaður Pepsi-deildar kvenna í fótbolta á þessu tímabili en það voru leikmenn deildarinnar sem völdu hana besta annað árið í röð.

Harpa fór fyrir liði Stjörnunnar sem varð Íslands- og bikarmeistari en hún skoraði fimmtán mörkum meira en næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar og var einnig með þrennu í bikarúrslitaleiknum.



„Eigum við ekki bara að segja að þetta sé fullt hús. Mér líður allavega ágætlega með þetta," sagði Harpa í viðtali við Eddu Sif Pálsdóttur í útsendingu Íslands í kvöld en sýnt var beint frá verðlaunaafhendingunni á Stöð tvö í kvöld.

„Ég er ótrúlega gæfurík að vera framherji í svona einstaklega vel mönnuðu Stjörnuliði. Þær eiga þetta alveg hundrað prósent með mér," sagði Harpa en er ekki erfitt að setja sér markmið eftir svona svakalegt tímabil.

„Markmiðið er að halda áfram að spila vel og halda þessum titlum. Það er nógu stórt markmið," sagði Harpa.

„Síðustu ár hefur verið gríðarlega gott starf í Garðabænum og stefnan hefur alltaf verið þessi þó svo að við höfum ekki gefið það út. Ég trúði því alla leið að við myndum ná þessu," sagði Harpa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×