Formúla 1

Hulkenberg áfram hjá Force India

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Nico Hulkenberg verður áfram í litum Force India.
Nico Hulkenberg verður áfram í litum Force India. Vísir/Getty
Nico Hulkenberg verður áfram ökumaður Force India liðsins í formúlu 1 á næsta tímabili. Staðfesting kom frá liðinu og ökumanninum í gær.

Þýski ökumaðurinn kom aftur til liðsins fyrir yfirstandandi tímabil eftir stutt stopp hjá Sauber. Hann er nú í áttunda sæti í heimsmeistarakeppni ökumanna með 76 stig, fimm stigum meira en Felipe Massa. Hulkenberg hefur átt gott tímabil og náð í stig í 13 af 16 keppnum hingað til.

„Það er gott að staðfesta hvar ég verð á næsta ári. Ég þekki liðið mjög vel og hef átt frábært ár og náð góðum úrslitum,“ sagði Hulkenberg.

„Liðið ætlar sér stóra hluti í framtíðinni og ég hef trú á því að við verðum áfram í baráttunni á næsta ári. Við eigum gott samband við Mercedes og allir innan liðsins hafa drifkraft í að gera meira,“ sagði ökumaðurinn.

Liðsstjóri Force India Vijay Mallya segist stoltur að hafa „einn af þeim bestu“ í bíl sínum.

„Við þekkjum hann mjög vel, hann er sannur keppnismaður og kann að drífa aðra í liðinu með sér. Ég er sannfærður um að hann sé einn efnilegasti ökumaðurinn í formúlu 1 og ég er stoltur af því að hafa hann áfram í litum Sahara Force India,“ sagði Mallya.

Orðrómur hafði verið á kreiki um að Hulkenberg fengi hugsanlega tækifæri hjá einu af stærstu liðunum. Það er nú ljóst að svo verður ekki í nánustu framtíð. Hann er greinilega kátur hjá Force India.

Línur eru að skýrast á ökumannsmarkaðnum en þó er stórum spurningum enn ósvarað. Hvar verður Fernando Alonso til dæmis? Það má ekki gleymast að í heimi formúlu 1 eru það ekki bara bílarnir sem eru snöggir. Breytingar á liðsskipan geta gerst ískyggilega hratt. Það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi þróun mála.


Tengdar fréttir

Framtíð Fernando Alonso í óvissu

Tvöfaldi heimsmeistarinn Fernando Alonso hefur ekkert viljað staðfesta hvar hann muni aka á næsta ári. Hann hefur nú útilokað að taka sér frí í eitt ár.

Ætlar McLaren að yngja upp?

McLaren liðið vinnur nú að þriggja til fimm ára ökumanna áætlun. Hvorugur ökumaður liðsins hefur heyrt hvort hann er inni í þeirri áætlun.

McLaren með stóra uppfærslu

Eric Boullier, keppnisstjóri McLaren segir að liðið muni mæta til keppni í Abú Dabí með mikið uppfærðan bíl.

Sebastian Vettel til Ferrari

Fjórfaldi heimsmeistarinn Sebastian Vettel hefur tekið ákvörðun um að yfirgefa herbúðir Red Bull þar sem hann hefur unnið alla sína titla í Formúlu 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×