Snjór og hálka er nú á götum höfuðborgarinnar eftir snjókomu næturinnar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir mikilvægt að fara varlega í umferðinni í dag og nauðsynlegt sé að gefa sér góðan tíma í að komast á milli staða.
Allt tiltækt lið á vegum Reykjavíkurborgar ruddi og saltaði götur borgarinnar í nótt. Á Facebook síðu Reykjavíkurborgar segir að haldið verði áfram þar til allar leiðir séu greiðar. Ökumenn eru hvattir til að fara ekki af stað á lélegum dekkjum.
Hálka er á Hellisheiði og víða á Suðurlandi og jafnvel krap eða snjóþekja í uppsveitum samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar. Þá er krapi á Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi og víðar á Reykjanesi.
Víðast hvar á Vesturlandi og Vestfjörðum er hálka, snjóþekja og éljagangur. Á Norðurlandi vestra eru hálka, hálkublettir og skafrenningur víða. Snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði, en þungfært og stórhríð á Siglufjarðarvegi. Á milli Ólafsfjarðar og Akureyrar er þæfingsfærð og snjókoma.
Hálka, snjóþekja og óveður er víðast hvar á norðausturströndinni.
Á Austurlandi er hálka, snjóþekja og skafrenningur en greiðfært er á suðausturlandi.

