Fótbolti

Ragnar og félagar töpuðu fyrsta leiknum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. Vísir/Getty
Ragnar Sigurðsson og félagar í rússneska liðinu Krasnodar töpuðu 2-4 á heimavelli á móti þýska liðinu Wolfsburg í 3. umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar í Rússlandi í dag.

Ragnar spilaði allan leikinn í miðri vörn Krasnodar-liðsins sem hafði gert jafntefli í tveimur fyrstu leikjum sínum í riðlinum. Ragnar fékk meðal annars gult spjald á 56. mínútu.

Andreas Granqvist, fyrirliði Krasnodar, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 37. mínútu og Kevin De Bruyne kom Wolfsburg síðan í 2-0 með marki eftir aðeins 39 sekúndna leik í seinni hálfleik.

Andreas Granqvist skoraði hjá báðum liðum í þessum leik því hann minnkaði muninn í 2-1 með marki úr vítaspyrnu á 51. mínútu en Luiz Gustavo kom þýska liðinu í 3-1 með glæsilegu marki á 64. mínútu.

Kevin De Bruyne, sem er fyrrum leikmaður Chelsea, skoraði síðan fjórða mark á 80. mínútu en varamaðurinn Wanderson náði að minnka muninn fyrir rússneska liðið fjórum mínútum fyrir leikslok.

Fjölmargir leikir fara fram í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta í kvöld og býður íþróttavefur Vísis lesendum sínum upp á að fylgjast með þeim öllum samtímis. Neðst í fréttinni má sjá sjálfvirka uppfærslu á helstu atvikum í leikjunum.

Hinir leikir kvöldsins hefjast síðan annarsvegar klukkan 17.00 og hinsvegar klukkan 19.05 en eins og áður eru leikjum Evrópudeildarinnar skipt niður í tvo hópa á leikdögum.

Svo nægir að smella á viðkomandi leik til að fá frekari upplýsingar - byrjunarlið, skiptingar, spjöld og mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×