Formúla 1

Framtíð Fernando Alonso í óvissu

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Framtíð Alonso enn óljós en hann er líklegast að fara til McLaren.
Framtíð Alonso enn óljós en hann er líklegast að fara til McLaren. Vísir/Getty
Tvöfaldi heimsmeistarinn Fernando Alonso hefur ekkert viljað staðfesta hvar hann muni aka á næsta ári. Hann hefur nú útilokað að taka sér frí í eitt ár.

Alonso er á förum frá Ferrari liðinu svo mikið virðist víst. Hann hefur verið orðaður við fjölda liða og leiða til að verja tíma sínum á næsta ári. Rifjaðar hafa verið upp áætlanir hans um að stofna hjólalið, slíkt virðist þó ekki vera á dagskrá Spánverjans.

„Það eru ekki miklar líkur á því,“ sagði Alonso þegar hann var spurður hvort hann yrði bíllaus á næsta ári.

„Eins og ég sagði á Suzuka þá skil ég forvitnina og að aðdáendur vilji fá fréttir, en engar áhyggjur. Slakið á og njótið, þegar tíminn er réttur fáið þið að vita,“ sagði ökumaðurinn.

„Ég ákvað mig fyrir um tvem til þrem mánuðum. Þegar þið fáið að vita þá skiljið þið að það var kannski frekar augljóst hvað ég mun gera,“ bætti hann við. Þetta þykir gefa byr fréttum um að Alonso fari til McLaren. Hann hefur verið sterklega orðaður við breska stórveldið.

Alonso virðist hafa útilokað nýjasta orðróminn um að hann ætli að endurreisa Lotus liðið, hugsanlega með því að reka liðið sjálfur að hluta. Lotus fær Mercedes vélar á næsta ári en Alonso sagði síðustu helgi að hann myndi „sennilega ekki“ nota Mercedes vél 2015.

Luca di Montezemolo, fyrrum forseti Ferrari staðfesti í dag að Alonso væri á förum frá liðinu. Montezemolo segir tvær ástæður fyrir brotthvarfi Alonso.

„Það eru tvær ástæður fyrir brottför Fernando. Í fyrsta lagi, þá vill hann annað umhverfi. Í öðru lagi þá er hann kominn á þann aldur að hann getur ekki beðið eftir að vinna aftur,“ sagði Montezemolo.

Sæti Alonso hjá Ferrari tekur ríkjandi fjórfaldur heimsmeistari Sebastian Vettel sem ekur fyrir Red Bull út tímabilið.


Tengdar fréttir

Bílskurinn: Rólegt í Rússlandi

Eftir kappakstur helgarinnar á spánýrri braut í Sochi, Rússlandi þar sem Lewis Hamilton jók forskot sitt á toppi stigakeppni ökumanna, er kominn tími til að skoða hvað gerðist. Fimm fyrstu hringirnir voru stútfullir af hasar, eftir það tók við rólegur og stöðugur kappakstur.

Bílskúrinn: Dimmur dagur á Suzuka

Fögnuður Mercedes liðsins var frekar lágstemmdur eftir að hafa landað fyrsta og öðru sæti í keppninni í Japan. Ástæðan var slys Jules Bianchi, ökumanns Marussia liðsins sem var fluttur á sjúkrahús með alvarlega höfuðáverka.

Sebastian Vettel til Ferrari

Fjórfaldi heimsmeistarinn Sebastian Vettel hefur tekið ákvörðun um að yfirgefa herbúðir Red Bull þar sem hann hefur unnið alla sína titla í Formúlu 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×