Formúla 1

McLaren með stóra uppfærslu

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Eric Boullier og McLaren hafa háleit markmið fyrir næsta tímabil.
Eric Boullier og McLaren hafa háleit markmið fyrir næsta tímabil. Vísir/Getty
Eric Boullier, keppnisstjóri McLaren segir að liðið muni mæta til keppni í Abú Dabí með mikið uppfærðan bíl. Abú Dabí kappaksturinn er sá síðasti á tímabilinu. Enn á þó eftir að keppa í Texas og Brasilíu áður en kemur að Abú Dabí.

Síðasta keppnin mun gefa tvöföld stig og það er því mikið undir. Boullier segir þó að aðal áherslan sé á að uppfærslan nýtist bíl næsta árs.

„Uppfærslurnar eru ekki eingöngu hannaðar til að nýta tvöföldu stigagjöfina, þær snúast meira um að byggja grunn fyrir framtíðina. Þær verða algjörlega yfirfæranlegar á bíl næsta árs,“ sagði Boullier.

McLaren liðið er í fjórða sæti bílasmiða. Ferrari er 45 stigum á unda í þriðja og Force India 20 stigum á eftir í fimmta. McLaren getur náð Ferrari samkvæmt Boullier.

„Ég held þó að eina skýra markmið ársins sé að endurbyggja liðið og komast í baráttu þeirra bestu sem allra fyrst,“ bætti Boullier við að lokum. Liðið horfir því ekki á Ferrari í ár sem markmið heldur heimsmeistaratitil bílasmiða á næsta ári.


Tengdar fréttir

Framtíð Fernando Alonso í óvissu

Tvöfaldi heimsmeistarinn Fernando Alonso hefur ekkert viljað staðfesta hvar hann muni aka á næsta ári. Hann hefur nú útilokað að taka sér frí í eitt ár.

Bílskurinn: Rólegt í Rússlandi

Eftir kappakstur helgarinnar á spánýrri braut í Sochi, Rússlandi þar sem Lewis Hamilton jók forskot sitt á toppi stigakeppni ökumanna, er kominn tími til að skoða hvað gerðist. Fimm fyrstu hringirnir voru stútfullir af hasar, eftir það tók við rólegur og stöðugur kappakstur.

Sebastian Vettel til Ferrari

Fjórfaldi heimsmeistarinn Sebastian Vettel hefur tekið ákvörðun um að yfirgefa herbúðir Red Bull þar sem hann hefur unnið alla sína titla í Formúlu 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×