Íslenski boltinn

Öruggur Selfoss-sigur | Enn tapar Valur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmunda Brynja skoraði fyrir Selfoss í sigri á FH.
Guðmunda Brynja skoraði fyrir Selfoss í sigri á FH.
Í kvöld fór fram heil umferð í Pepsi-deild kvenna. Aðeins ein umferð er nú eftir í deildinni.

Eins og greint var frá á Vísi tryggði Stjarnan sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð með 3-0 sigri á Aftureldingu á heimavelli. Harpa Þorsteinsdóttir skoraði öll þrjú mörkin á 11 mínútna kafla í seinni hálfleik.

Breiðablik vann 3-1 sigur á botnliði ÍA á heimavelli. Rakel Hönnudóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir skoruðu mörk Blika, en Guðrún Karítas Sigurðardóttir minnkaði muninn fyrir Skagakonur á lokamínútu leiksins.

Fylkir tapaði öðrum leik sínum í röð, nú fyrir Þór/KA á heimavelli. Lillý Rut Hlynsdóttir skoraði eina mark leiksins á 50. mínútu.

Eyjakonur gerðu góða ferð upp á fasta landið og unnu 1-3 sigur á Val. Bryndís Hrönn Kristinsdóttir kom ÍBV yfir í fyrri hálfleik, en Dóra María Lárusdóttir jafnaði metin snemma í seinni hálfleik.

Shaneka Jodian Gordon og Vesna Elísa Smiljkovic tryggðu svo gestunum sigur með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla um miðjan seinni hálfleik.

Þá vann Selfoss öruggan 1-4 sigur á FH á útivelli. Eva Lind Elíasdóttir skoraði tvö mörk og þær Guðmunda Brynja Óladóttir og Kristrún Rut Antonsdóttir sitt markið hvor fyrir Selfosskonur. Margrét Sveinsdóttir skoraði mark FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×