Fótbolti

Ólafur Karl hetja Stjörnumanna í Skotlandi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Valli
Ólafur Karl Finsen tryggði Stjörnunni gríðarlega mikilvægt 2-2 jafntefli gegn Motherwell í undankeppni Evrópudeildarinnar í dag.

Ljóst var að verkefnið yrði erfitt fyrir Stjörnuna. Motherwell lenti í öðru sæti skosku deildarinnar á síðasta tímabili, einu sæti á eftir Celtic sem sigraði KR á þriðudaginn 1-0.

Taugarnar voru eitthvað að stríða leikmönnum Stjörnunnar í upphafi leiks því Skotarnir komust fljótlega 2-0 yfir með mörkum frá Josh Law.

Garðbæingar létu hinsvegar ekki deigan síga og komust aftur inn í leikinn. Ólafur Karl  minnkaði muninn stuttu fyrir hálfleik af vítapunktinum þegar tíu mínútur voru eftir í fyrri hálfleik og var staðan 2-1 fyrir Motherwell í hálfleik.

Þegar allt virtist stefna í að það yrðu lokaúrslit leiksins fékk Stjarnan annað víti dæmt og aftur steig Ólafur Karl á punktinn. Hann var ískaldur að vana og kláraði vítið og tryggði Garðbæingum mikilvægt jafntefli.

Seinni leikur liðanna fer fram á Samsung vellinum á fimmtudaginn og má búast við gríðarlega góðri stemmingu á pöllunum enda er liðið í fínum möguleika á að komast í næstu umferð eftir að hafa skorað tvö útivallarmörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×