Fótbolti

Stórsigur hjá Söru og Þóru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Vísir/Getty
FC Rosengård náði aftur þriggja stiga forskoti á toppi sænsku úrvalsdeildar kvenna í fótbolta eftir 6-1 stórsigur á Piteå IF í kvöld.

Landsliðskonurnar Sara Björk Gunnarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir voru báðar í byrjunarliðinu en Sara Björk var tekin af velli þegar tíu mínútur voru eftir að staðan var orðin 5-1.

Þýski framherjinn Anja Mittag átti stórleik en hún skoraði þrennu og lagði einnig tvö önnur mörk upp fyrir þær Ramonu Bachmann og Elin Rubensson. Kathleen Radtke skoraði síðan sjötta og síðasta markið.

Piteå komst í 1-0 á áttundu mínútu þegar Anita Asante, miðvörður Rosengård, varð fyrir því óláni að skora í eigið mark framhjá Þóru. Rosengård-liðið lét það ekki stoppa sig og var komið í 3-1 eftir tuttugu mínútur.

Rosengård er með þremur stigum meira en Örebro auk þess að vera með miklu betri markatölu þegar 10 umferðunum af 22 er lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×