Rúnar kom, sá og sigraði á Evrópumótinu í kraftlyftingum fyrir viku síðan í Voiron í Frakklandi. Rúnar gerði sér lítið fyrir og vann í-67,5 kg flokknum ásamt því að fá flest stig allra keppenda á mótinu í unglingaflokki.
„Þetta gekk betur en maður þorði að vona. Ég var nokkuð bjartsýnn en þetta kom mér á óvart, ég velti alveg fyrir mér hvort maður ætti einhverja möguleika í þetta. Það sem stendur uppúr er að fá stigabikar unglinga, að fá flest stig allra unglinga er frábært.“
Rúnar bætti Íslandsmet unglinga í öllum greinum sem hann tók þátt í en hann átti þau flest fyrir.
„Það var eiginlega bara plús, ég átti þau öll fyrir svo það var kannski ekki það sem ég var að horfa á fyrir keppnina. Eigum við ekki að segja að það hefði verið bónus. Markmiðið var að bæta heimsmetið í bekknum en ég var meiddur og það verður að bíða betri tíma,“ sagði Rúnar léttur.
Nokkrir Íslendingar tóku þátt á mótinu og var Rúnar ekki sá eini sem náði árangri.
„Við vorum nokkrir Íslendingar þarna, bæði í unglingaflokkum og eldri. Tveir af þeim eldri settu heimsmet og tóku gull,“ sagði Rúnar að lokum en myndband af einni lyftu hans má sjá hér fyrir neðan.
