Innlent

Reykjavík síðdegis: „Þetta er eins og aðfangadagur“

Þorgeir Ástvaldsson og Kristófer Helgason skrifar
S. Björn Blöndal í veðurblíðunni á Austurstræti.
S. Björn Blöndal í veðurblíðunni á Austurstræti. Mynd/Kristófer Helgason
„Mér er náttúrulega alveg ofboðslega heitt,“ segir S. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar í Reykjavík, þegar Reykjavík síðdegis náði tali af honum í veðurblíðunni á Austurstræti fyrr í dag.

„Nei nei, þetta er alveg ágætt. Þessi dagur leggst rosa vel í mig. Þetta er eins og aðfangadagur, svo veit maður ekkert hvað verður í pakkanum.“

Hann segist vera mjög bjartsýnn fyrir því sem koma skal.

„Já, ég er það. Við erum auðvitað að koma að þessu úr svolítið skringilegri átt. Við erum bæði ný og gömul. Svo er einhvern veginn ekkert sjálfsagt að maður eins og ég, með minn bakgrunn, sé að leiða eitthvað framboð í Reykjavík sem er með tuttugu prósent fylgi. Mér finnst þetta bara svolítið geggjað. Þannig að ég er mjög bjartsýnn, ég get ekki tapað.“

Björn starfaði á síðasta kjötímabili sem aðstoðarmaður Jóns Gnarr. Það er því ekki úr vegi að spyrja hann, verður Jón aðstoðarmaður Björns ef sá síðarnefndi verður borgarstjóri?

„Ég hef nefnt þetta við hann, hann hefur ekki útilokað það. Við erum samt sammála um að það væri sennilega mjög vond hugmynd,“ segir Björn og hlær.

Hann segir að fjölmiðlar hafi að miklu leyti fjallað vel um málefnin en geti þó gert betur.

„Ég held að það sem fjölmiðlar þurfi að vinna meira með er fjöldi framboða. Þetta er alltaf svolítið miðað út frá fjórum flokkum. Og ef þeir eru allt í einu orðnir átta, þá kannski gengur það ekki jafn vel upp. Það er svona áskorunin fyrir næstu kosningar. Það þarf að finna form sem hentar betur þessum fjölda, því ég held að framboðunum sé ekki að fara að fækka.

Björt framtíð er að gera svolítið merkilega tilraun, bæði hér og úti á landi.  Við erum að reka kosningabaráttu fyrir frekar lítinn pening en samt að ná alvöru árangri. Við erum með fimmtán til tuttugu prósent víða um land og við erum að eyða, svo maður tali á sjómannamáli, skít og kanil.“

Reykjavík síðdegis er búið að vera á flakki í Reykjavík í dag. Sjá má viðtöl við aðra oddvita í borginni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×