Síðasti vetrardagur verður sólríkur víðast hvar um landið. Birtir til á flestum stöðum á landinu og hiti fer víða yfir tíu stigin samkvæmt veðurspá dagsins.
Hvanneyri mun njóta mestu veðurblíðunnar, þar verður hlýjast fjórtan stiga hiti og verður vindur fjórir metrar á sekúndur. Á höfuðborgarsvæðinu fer hitinn mest upp í þrettán gráður en upp úr miðjum degi gæti farið að rigna.
Hitinn fer annars víðast í og yfir tíu gráður og er vindur fremur hægur, ef frá er skilinn suð-austurhluti landsins og Raufarhöfn.
Ef rýnt er í veðurspá næstu daga kemur berlega í ljós að dagurinn í dag er sá sólríkasti. Veðurspá næstu daga lítur svona út:
Á fimmtudag (sumardagurinn fyrsti):
Austan og suðaustan 3-10 m/s. Víða bjartviðri á norðanverðu landinu, annars skýjað og dálítil rigning á S- og SA-landi. Hiti 7 til 13 stig.
Á föstudag:
Vestlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og rigning með köflum, en úrkomulítið A-lands. Hiti 3 til 10 stig.
Á laugardag:
Norðvestan 3-8 m/s. Bjartviðri á S- og A-landi, en lítilsháttar rigning eða slydda NV-til. Hiti 2 til 12 stig, hlýjast syðst.
Á sunnudag:
Norðanátt og dálitlar skúrir eða él, en þurrt og bjart SV-lands. Kólnandi veður.
Á mánudag:
Norðanátt og dálítil él A-til og einnig syðst á landinu, en léttskýjað SV-lands. Hiti 0 til 5 stig að deginum syðra, annars um eða undir frostmarki.
Á þriðjudag:
Norðanátt og snjókoma eða él, einkum A-lands, en þurrt SV-til. Kalt í veðri.
Sólríkur síðasti vetrardagur
Kjartan Atli Kjartansson skrifar
