Bílar

Óumbeðin Tesla-auglýsing tryggði framtíðina

Finnur Thorlacius skrifar
Tesla Model S.
Tesla Model S.
Tesla Motors eyðir ekki eyri í framleiðslu auglýsinga og það vissu tveir nýútskrifaðir nemendur háskólans í S-Kaliforníu en gerðu samt mínútulangt auglýsingamyndband um Tesla Model S bílinn.

Það sendu þeir síðan til Elon Musk forstjóra og eiganda Tesla. Hann varð svona yfir sig hrifinn og kallaði þá á sinn fund í janúar síðastliðnum sem leitt hefur til frekara samstarfs milli þeirra og Tesla.  

Gerð auglýsingarinn kostaði þá kumpána 1.500 dollara, sem lá aðallega í hótelkostnaði og mat fyrir þá 15 sjálfboðaliða sem þeir fengu með sér við gerð auglýsingarinnar.

Svo mikil hefur velgengni þeirra verið síðan að framleiðslufyrirtæki þeirra hefur nú 14 manns í vinnu, náði sér strax í fjármögnun og hefur unnið auglýsingar fyrir nokkur fyrirtæki síðan. Svona getur ein góð hugmynd og smá sjálfboðavinna skilað miklum árangri og athygli. Sjá má auglýsinguna fyrir Tesla hér að ofan.






×