Erlent

Farþegavél hvarf af ratsjá

Fólk býr sig undir það versta.
Fólk býr sig undir það versta. vísir/afp
Víðtæk leit stendur yfir á Suður- Kínahafi að farþegaþotu Malaysian Airlines sem hvarf af radar í gærkvöldi. 239 manns voru um borð. Víetnamski sjóherinn segir vélina hafa farist undan ströndum Víetnam en það er óstaðfest.

Þotan er af gerðinni Boeing 777 og hefur ekkert spurst til hennar frá því rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöldi að íslenskum tíma. Hún var á leið til Peking en týndist yfir Víetnam og fór aldrei inn í kínverka lofthelgi. Flugleiðin er að mestu yfir landi sem þýðir að fjarskiptasamband hefði átt að vera gott.

Um borð í vélinni eru 239 manns af 14 þjóðernum, þar af tólf manna áhöfn. Flestir eru frá Kína og Malasíu en einnig var um borð fólk frá Indónesíu, Ástralíu, Frakklandi og Bandaríkjunum.

Vélin hafði flogið í 35 þúsund feta hæð er hún hvarf og höfðu flugmenn hennar ekki tilkynnt nein vandamál. Ekkert var að veðri og flugstjórinn hefur flogið fyrir Malaysia Airlines, sem þykir með bestu flugfélögum heims, í 33 ár. Talið er að eldsneytisbirgðir sem voru um borð hefðu verið á þrotum í kringum miðnætti í gærkvöldi.

Starfsmaður Malaysia Airlines sagði á blaðamannafundi sögusagnir um að vélin hefði lent í Nanming í Kína en þarlend flugmálayfirvöld hafa neitað því.

„Við vinnum með yfirvöldum sem hafa sent af stað leitar- og björgunarhópa til að reyna að finna flugvélina. Fólk á okkar vegum hringir nú í aðstandendur farþeganna og áhafnarinnar.“

„Hugur okkar er hjá farþegunum og fjölskyldum þeirra og við biðjum fyrir þeim.“

Flugsérfræðingar hafa lýst yfir furðu sinni vegna atviksins og segja Boeing 777 með öruggustu flugvélum. Meira en þúsund slíkar hafa verið framleiddar og aðeins 60 flugatvik hafa verið skráð, flest minniháttar. Fyrsta banaslysið í 19 ára sögu vélanna varð síðasta sumar þegar þrír af 307 um borð létust er vél Asiana Airlanes lenti utan brautar í San Fransiskó. Þar af lét einn lífið þegar neyðarbíll lenti á vélinni. Mjög sjaldgæft er að samband við flugvélar tapist án nokkurra vísbendinga um vandamál.

Engin ummerki um brak vélarinnar sem hvarf í gær hafa fundist á Tælandsflóa þar sem sambandið við hana rofnaði en beðið er staðfestingar frá víetnamska sjóhernum sem segir að vélin hafi farist undan ströndum Víetnam.

Ættingjar og vinir þeirra sem voru um borð bíða á flugvellinum í Peking og búa sig undir það versta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×